Persónuverndarlög gilda um fólk, ekki fyrirtæki

Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjóri Persónuverndar segir persónuverndarlög í grundvallaratriðum gilda um einstaklinga, en ekki fyrirtæki. Vinnumálastofnun segir birtingu lista yfir þau fyrirtæki sem nýta hlutabótaleiðina líklega stangast á við persónuverndarlög. Fjármálaráðherra er þessu ósammála, og segir brýnt að finna þau fyrirtæki sem misnota hlutabótaleiðina.

Vinnumálastofnun efins um birtingu

Vinnumálastofnun sendi frá sér tilkynningu síðdegis í gær þar sem sagði að stofnunin teldi sig hvorki hafa heimild til að afhenda né birta lista yfir þau fyrirtæki sem gert hafa samkomulag við starfsmenn sína um minnkað starfshlutfall. Er þetta byggt á lögum um persónuvernd, þar sem birting slíks lista mundi gera fólki auðvelt fyrir að finna út hverjir hafi fengið atvinnuleysisbætur. Tilefnið voru ummæli forsætisráðherra og fjármálaráðherra í fréttum RÚV að stofnunin ætti að birta lista yfir þau fyrirtæki sem hafi nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda til að hafa allt uppi á borðum. Vinnumálastofnun leitar álits Persónuverndar vegna málsins. 

Persónuvernd fer í málið

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við fréttastofu að grundvallarreglan sé sú að persónuverndarlögin gildi um einstaklinga, en ekki fyrirtæki. Þó gæti þau átt við þegar fyrirtæki eru mjög lítil, með tvo eða þrjá starfsmenn, en það fari eftir eðli upplýsinganna sem undir eru. Lögfræðingar Persónuverndar muni skoða málið og afgreiða það hið allra fyrsta. 

Snýst um gagnsæi og eftirlit

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra birti langa færslu á Facebook í morgun þar sem hann segir það brátt koma í ljós hvort hér hafi verið settar slíkar skorður í persónuverndarlögum að ekki sé hægt að birta lista yfir fyrirtæki sem gerðu samninga um lægra starfshlutfall og væntir niðurstöðu innan fárra daga. Hann segir það mundu koma sér á óvart að ekki megi birta nöfn fyrirtækja sem tóku þátt í hlutabótaleiðinni, þetta snúist einfaldlega um gagnsæi. Því sjái hann ekki hvers vegna þetta ætti að vera viðkvæmt mál frá sjónarhóli fyrirtækjanna. Ef dæmi séu um fyrirtæki sem urðu ekki fyrir tekjufalli eða dreifðu peningum út til eigenda sinna á sama tíma og þau sóttu pening til ríkisins, þurfi eftirlit til að finna þau fyrirtæki. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi