Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Funheitur Whitehead

Mynd: EPA / EPA

Funheitur Whitehead

09.05.2020 - 14:42

Höfundar

Bandaríski rithöfundurinn Colson Whitehead hlaut á mánudag hin virtu bandarísku Pulitzer-verðlaun, ein virtustu blaðamennsku- og bókmenntaverðlaun vestan hafs, fyrir skáldsöguna The Nickel Boys sem kom út í fyrra. Þetta er í annað sinn sem Whitehead fær Pulitzer-verðlaunin í flokki bókmennta, það hafa einungis þrír rithöfundar afrekað áður, bandarísku rithöfundarnir Booth Tarkington, William Faulkner og John Updike.

Whitehead fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir skáldsöguna The Underground Railroad árið 2017 og bandaríska tímaritið Time útnefndi The Nickel Boys eina af merkustu bókum síðasta áratugar. Fyrir The Underground Railroad hlaut Whitehead ekki aðeins Pulitzer-verðlaunin heldur einnig önnur virt bandarísk verðlaun, The National Book Award, sem afhent eru í nóvember á hverju ári, hann tók við þeim árið 2016. Skáldsagan var einnig valin ein af tíu bestu bókum árið 2016 af The New York Times Book Review.

Grimmur sögulegur veruleiki

Colson Whitehead fæddist í New York þann 6. nóvember árið 1969, hann ólst upp á Manhattan, og útskrifaðist frá Harvard-háskóla árið 1991. Hann hefur skrifað sjö skáldsögur, tvær non-fiction bækur, þar sem hann fjallar meðal annars um daglegt líf á Manhattan, auk ritgerða og smásagna. Hann hefur kennt við Princeton-háskóla, New York-háskóla, og Columbia-háskóla, svo eitthvað sé nefnt, og skrifar reglulega um tungumál í The York Times Magazine. Í The Nickel Boys, sem er sjöunda skáldsaga Whiteheads, fjallar hann að vissu marki um sannsögulega atburði sem gerðust í hinum svokallaða Dozier-skóla, fullu nafni Arthur G. Dozier School for Boys, sem starfræktur var í Flórída á árunum 1900 til 2011. Þangað voru sendir drengir sem framið höfðu smávægileg afbrot, eða voru í það minnsta sakaðir um að hafa framið smávægileg afbrot. Skólinn átti að gera þá að betri mönnum, en raunin varð önnur, í skólanum sættu drengirnir herfilegri misnotkun, barsmíðum, nauðgunum, og pyntingum af ýmsu tagi, sumir drengjanna voru hreinlega drepnir. Um tíma var Dozier-skólinn stærsta betrunarheimili í Bandaríkjunum, yfirvöld lokuðu skólanum árið 2011. „Hann er að tækla þarna mjög erfið mál sem bandarískt samfélag hefur ekki viljað horfast í augu við og gerir það mjög vel,“ segir Árni Matthíasson blaðamaður sem þekkir vel til verka Colsons Whiteheads.

Söguhetjan í The Nickel Boys eftir Colson Whithead heitir Elwood Curtis, ungur drengur sem elst upp í borginni Tallahassee í Flórída, á tímum hinnar svokölluðu Jim Crow - löggjafar sem festi í sessi aðskilnað svartra og hvítra. Barátta svartra fyrir auknum réttindum er í algleymingi, þetta er í upphafi sjöunda áratugarins, og já þetta er bók um kynþáttaspursmálið. Söguhetjan Elwood Curtis heillast mjög af orðræðu Martins Luthers King, um að svartir séu jafn góðir og aðrir, við verðum að trúa því að við séum mikilvæg, að við séum verðug, og svo framvegis. Hann á aðeins eina plötu, hún heitir Martin Luther King at Zion Hill, þar sem King flytur mál sitt af sinni alkunnu snilld. Whitehead segir í verkinu ekki aðeins sögu hins unga Elwoods Curtis, sem sendur er í Nickel-akademíu svokallaða, heldur einnig vinar hans Turners, þeir hafa mjög ólíka afstöðu til lífsins, en lenda báðir í helvíti betrunarvistar. „Þarna höfum við þennan dreng, hugsjónadreng, sem er ofboðslega gáfaður,“ segir Árni, „og lærir af sjálfum sér, góður og metnaðarfullur, og svo höfum við þennan sem er svolítið harður og slunginn og skeptískur, og þeir verða miklir vinir.“ Bókin hefst í samtíma okkar á því að það finnst grafreitur á skólalóðinni, þar sem tugir líka finnast í ómerktum gröfum. Whitehead byggir hér á sögulegum staðreyndum, það er ekki langt síðan þetta gerðist, á síðasta ári voru enn að finnast grafir á skólalóð Dozier-skólans, 27 fundust svo seint sem á síðasta ári. „Colson Whitehead hefur verið að leika sér með „alternative history“, hliðarsögu, eða auka-sögu, hvað-ef sögu, The Underground Railroad er einmitt þannig,“ segir Árni Matthíasson. „En þessi bók er nútímasaga, gerist í okkar raunveruleika, byrjar á sjöunda áratugnum og nær fram til þessa áratugar, og talar inn í samtímann, það sem er að gerast núna. Elwood Curtis er ungur maður sem heillast af Martin Luther King, og hlustar á ræður hans, fær þaðan sína innrætingu og uppeldi, sitt siðferðilega og hugmyndafræðilega uppeldi. Þetta er á sjöunda áratugnum þegar frelsisbarátta svartra var að ná hámarki í Bandaríkjunum. Og hann er mjög ungur þegar kynþáttaaðskilnaður er afnuminn með lögum, afnuminn í orði en ekki á borði fyrir þá sem bjuggu í Suðurríkjunum. Hann er birtingarmynd þeirrar hugsunar að ef þú ert góður, ef þú ert þægur, ef þú ert duglegur að læra og ert klár og kurteis þá kemstu áfram í heiminum.“

Fátt breytist

Colson Whitehead hefur sagt að það hafi ekki verið mikill munur á því að vera svartur drengur í Flórída í upphafi sjöunda áratugarins annars vegar og í New York á níunda áratugnum hins vegar. Fátt hafi breyst á löngum tíma, „Þegar Obama varð forseti voru menn sem sögðu að þessari umræðu væri lokið, kynþáttahatur væri ekki til lengur í Bandaríkjunum, meira að segja svertingi getur orðið forseti,“ segir Árni Matthíasson. „Hvað gerist átta árum síðar? Þá erum við komin á verri stað en áður. Hann er að skrifa beint inn inn í þennan samtíma, og sýna að í New York á níunda áratugnum, sagan berst þangað, þá ertu ekki öruggur ef þú ert svartur. Og í dag, 2020, þá ertu ekkert öruggur ef þú ert svartur, sérstaklega ef þú býrð í ákveðnum fylkjum í Bandaríkjunum.“

Óhætt er að segja að Colson Whitehead sé á miklu flugi þessi misserin. Á síðasta ári prýddi hann forsíðu bandaríska tímaritsins Time, skáldsagan The Nickel Boys hefur algerlega slegið í gegn, og rokselst. Whitehead er sagður í verkum sínum kallast á við verk bandarískra höfunda sem hafa skrifað meistaraverk um málefni blökkumanna, höfunda á borð við Toni Morrison, Ralph Ellison og Harper Lee. En einnig við verk jafn ólíkra höfunda og Frans Kafka, Jorge Luis Borges, Jonathan Swift og Gabriel Garcia Marques. The Nickel Boys er „algerlega frábær bók,“ segir Árni Matthíasson, „hún talar beint við hjartað í manni.“

Rætt var við Árna Matthíasson í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fær Pulitzer-verðlaun öðru sinni