Dæmdur fyrir að stinga tvo bræður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur staðfesti í gær 20 mánaða dóm yfir karlmanni fyrir líkamsárás. Maðurinn var sakfelldur fyrir að stinga tvo bræður með hnífi. Hann bar við neyðarvörn og kvaðst hafa talið sig í lífshættu. Dómarar gáfu lítið fyrir þau rök hans, bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og í Landsrétti. Maðurinn fór vopnaður hnífi inn í húsið á eftir manni sem hann hafði hitt utandyra. Þegar inn var komið kom til átaka og þá stakk maðurinn bræðurna tvo.

Brotin framdi maðurinn að kvöldi sunnudags um miðjan maí árið 2016, fyrir rétt tæpum fjórum árum. Maðurinn kom ásamt vinum sínum að húsi og varð þar eftir ásamt einum vini sínum. Báðir voru undir áhrifum fíkniefna. Mennirnir hittu annan bræðranna fyrir utan húsið og fóru síðan inn á eftir honum. Þá var árásarmaðurinn búinn að taka upp hníf sinn, að því er fram kemur í dómi. Annar mannanna sem varð fyrir árásinni sótti eldhúshníf. Bróðir hans kom niður skömmu síðar og hugðist koma bróður sínum til varnar. Þá stakk vopnaði maðurinn bræðurna. Annar bróðirinn hlaut skurði í andlit og upphandlegg, hinn hlut skurði á upphandlegg og framhandlegg.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að árársarmaðurinn var vopnaður beittum hnífi og var æstur. Annar bróðirinn var með bitlausan eldhúshníf. Dómarar segja að árásarmaðurinn hafi ekki haft ástæðu til að óttast um líf sitt, eins og hann hélt fram sjálfur. Því frýjaði neyðarvörn hann ekki ábyrgð á árásinni. 

Maðurinn hlaut 20 mánaða fangelsisdóm. Hann var dæmdur til að greiða öðrum bræðranna 800 þúsund krónur í bætur og hinum 600 þúsund krónum. Bótaupphæð síðarnefnda bróðurins hafði verið ákvörðuð 800 þúsund í héraðsdómi en Landsréttur lækkaði fjárhæðina.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV