Tilkynningar til barnaverndar ekki fleiri síðan 2018

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Tilkynningar um heimilisofbeldi þar sem börn koma við sögu voru 46 í apríl, undanfarin tvö ár hafa þau að meðaltali verið 18 á mánuði. Framkvæmdastjóri segir það áhyggjuefni og mikilvægt sé að ræða málin opinskátt í kjölfar farsóttarinnar.

Alls bárust 468 tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur í apríl um 332 börn. Það er næstmesti fjöldi tilkynninga á mánuði frá upphafi árs 2018 að undantöldum janúar í ár, þá bárust 480 tilkynningar.

Í apríl voru 220 tilkynninganna vegna vanrækslu, 135 vegna áhættuhegðunar barna og 113 vegna ofbeldis. Í 71 tilviki var barn metið í bráðri hættu. Virk mál á borði barnaverndarstarfsmanna í Reykjavík eru 2.175 talsins.

Fjölgun í heimilisofbeldismálum

Tilkynningar um heimilisofbeldi, þar sem börn komu við sögu hafa ekki verið fleiri í upphafi árs í rúman áratug en þeim fjölgaði hlutfallslega mjög mikið milli mánaða. Tilkynningar vegna heimilisofbeldis voru 21 í mars en voru 46 í apríl. Að meðaltali hafa verið um 18 tilkynningar á mánuði vegna heimilisofbeldis síðustu tvo ár.

Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi þar sem börn eru á heimilinu sé mikið áhyggjuefni og það sé brugðist hratt við í slíkum málum. „Samfélagið lætur greinilega vita ef grunur vaknar um ofbeldi á heimilum þar sem börn eru stödd. Munum að það er ekki síður mikilvægt að halda áfram að ræða þessi mál opinskátt í kjölfar COVID-19,“ segir Hákon.

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi