Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Strandveiðar fara almennt vel af stað

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Nú er lokið fyrstu viku strandveiðitímabilsins og veiðar hafa almennt farið vel af stað. Landssamband smábátaeigenda hefur farið fram á talsverðar breytingar á strandveiðikerfinu að þessu sinni til að tryggja óheftar veiðar.

Strandveiðarnar hófust á mánudag og þessa viku hafa 338 bátar landað afla, en 463 eigendur smábáta hafa virkjað sín veiðileyfi. Veiðarnar byrja almennt vel þó bræla hafi truflað einhverja í byrjun vikunnar.

Handfærafiskur helmingur uppboðs á mörkuðum

Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeiganda, er ánægður með þessa byrjun. „Það er áhugavert líka, í sambandi við fiskmarkaðina, að um helmingur af því sem er boðið upp af þorski á þessum dögum hefur verið afli veiddur á handfæri.“

Fiskverðið betra en búist var við

Fiskverð hefur valdið áhyggjum en lágt verð hefur almennt verið á mörkuðum undanfarið. En Örn segir að þessa fyrstu daga sé svipað verð og við upphaf veiðanna í fyrra, þó gengið sé vissulega óhagstæðara núna. „Þannig að ég ætla að vona það að þróunin verði sú sama, að fiskverðið fari þá frekar upp á við.“

Fleiri á strandveiðar vegna grásleppubannsins

Hann býst við að um 700 bátar verði á strandveiðum í sumar og stöðvun gráslappuveiðanna verði til þess að fjölga bátum á strandveiðum. Þannig gætu þau 11.000 tonn af óslægðum bolfiski, sem heimilt er að veiða í ár, klárast áður en sjómenn nái að nýta sér þá 48 daga sem hver og einn hefur á vertíðinni. „Í fyrra þá dugði þetta og var afgangur og við höfum óskað eftir því að þessum afgangi frá í fyrra verði einfaldlega bætt við. Það er eðlilegt að þessi hópur fái að færa veiðiheimildir á milli ára eins og aðrir.“

Vilja lengja veiðitímann ef aflaviðmið næst ekki 

Þetta er meðal breytinga sem Landssambandið vill að gerðar verði á strandveiðunum í ár og þeir vilja meðal annars lengja veiðitímann sem nú er fjórir mánuðir. „Við vitum að það er kannski erfitt yfir svartasta skammdegið að heimila strandveiðar. En það væri þá allavega í september, ef væri ekki búið að ná þessarri aflaviðmiðun. Og menn gætu þá startað veiðum í apríl 2021,“ segir Örn.