Stöðugt „catcalling“ í New York varð innblástur

Mynd: RÚV / RÚV

Stöðugt „catcalling“ í New York varð innblástur

08.05.2020 - 09:34

Höfundar

„Það þurfa ekki að vera dansspor til að það sé kóreógrafía fyrir mér. Í dag skoða ég kóreógrafíu frekar sem eitthvert afl, að búa til orku og vinna með þá orku sem skapast milli flytjenda og áhorfenda,“ segir danshöfundurinn Anna Kolfinna Kuran. Hún á að baki fjölbreyttan feril sem hófst í klassískum ballett. 

Anna Kolfinna er með bakgrunn í klassískum ballett sem hún lærði hér á landi og á síðari stigum í Danmörku. Litlu munaði að hún legði ballettinn fyrir sig en um tvítugt ákvað hún að breyta um kúrs og læra samtímadans í Listaháskóla Íslands. Sú ákvörðun reyndist heillaspor. „Við fengum að smakka á ótrúlega fjölbreyttu námsefni, bæði hvað varðar danstækni, stíl og allt þetta. Ég komst að því að mig langaði að vinna með fólki sem veitir mér innblástur og ég tengi við. Þetta samtal hefur verið mjög mikilvægt fyrir mér.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kolfinna Kuran - Konulandslag
Konulandslagsgjörningur Önnu Kolfinnu í New York vakti athygli

 

Kalla, gelta, hvísla

Í verkum sínum hefur Anna Kolfinna unnið með hópa og kraftinn í fjölda og liðsheild. Undir yfirskriftinni Konulandslag hefur hún sett á svið ýmis verk sem eru rannsókn á sambandi kvenna við umhverfi sitt. Hugmyndin kviknaði þegar Anna Kolfinna var við nám í Bandaríkjunum. „Ég er að skoða sýnileika kvenna, rými og konur eða rými og kyn. Ég fór í mastersnám til New York fyrir þremur eða fjórum og upplifði kyn mitt svo sterkt þar, í borginni, úti á götu af því ég varð fyrir miklu áreiti, eins og ég held að margar konur upplifi í New York og náttúrlega á mörgum stöðum í heiminum. Cat calling er þegar fólk kallar eða hvíslar eða ávarpar ókunnuga úti á götu eða í almenningsrýmum. Þetta var svo stöðugt og á hverjum einasta degi og eiginlega í hvert sinn sem ég fór út úr húsi varð ég fyrir einhverjum köllum, geltum eða hvíslum eða bílar að stoppa. Þetta er í rauninni kveikjan að Konulandslagi.“

Taka yfir rými með líkamanum

Útskriftarverkefni Önnu Kolfinnu úr meistaranáminu nefnist Móðurskipið. Í því safnast hópur kvenna saman á götu og fyllir í rýmið, tekur táknrænt pláss í borgarlandslaginu. Það hefur verið flutt í New York, Reykjavík og Río de Janeiro. „Nýjasta verkið mitt undir þessari yfirskrift, Konulandslagi, heitir Yfirtaka. Í Yfirtökunni erum við að reyna að taka yfir rými, innanhúss, hingað til alla vega. Ég safna saman eins mörgum konum og ég get, það fer eftir því hversu stórt rýmið er hversu margar ég þarf. Þær eru á mjög breiðu aldursbili, ég hef farið niður í 11 ára og upp í 80 plús. Svo tökum við yfir rými með líkama okkar, orku og rödd. “ Yfirtaka hefur verið flutt fjórum sinnum hér á landi, á nokkrum stöðum í Reykjavík og svo á listahátíðinni Plan B í Borgarnesi.

Spennandi að fást við andstæðu

Anna Kolfinna var nýverið í listamannadvöl á Dansverkstæðinu. Þar gerði hún verk inn í seríuna SuperSolo sem Steinunn Ketilsdóttir stýrir. Syrpan samanstendur af sólóverkum ólíkra danshöfunda. „Mér fannst þetta eitthvað spennandi því ég hef unnið svo mikið með hitt, margar konur, marga líkama á sviði og í rými, að vera bara einn líkami. Ég sendi fyrirspurn á vini sem eru listamenn af ýmsu tagi og bað þau að senda mér handrit. Samstarfið felst í því að þau sendu mér einhverja uppskrift og ég tók það fram að þessi uppskrift eða þetta handrit mætti vera á hvaða formi sem er í rauninni. Svo umbreyti ég þessu handriti í sólóverk.“

Ferlið skilaði verkum sem aðstæðna vegna gátu ekki fallið inn í hefðbundið ferli æfinga og frumsýningar heldur eru aðgengileg á stafrænu formi. Tvö þeirra eru fullkláruð og fleiri í bígerð. Hið fyrra var unnið með Ásrúnu Magnúsdóttur og nefnist Múltí sóló og hitt verkið var afrakstur samstarfs Önnu Kolfinnu og Hauks Valdimars Pálssonar og nefnist Páska Eggertsdóttir.

Fjölbreytt list

Verk Önnu Kolfinnu sameina nokkrar listgreinar og standa á mótum dans og annarra miðla. Henni finnst engu að síður brýnt að undirstrika að allt rúmast þetta undir hatti dans sem listgreinar. „Mér finnst mikilvægt að titla mig danshöfund og lít á öll verkin mín sem dansverk. Það mætti örugglega flokka þau sem eitthvað annað líka, þau eru líka gjörningar, stundum ákveðin myndlist og hljóðverk.“

Rætt var við Önnu Kolfinnu Kuran í Menningunni.