Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Rafrænar brautskráningar úr HA

Merki háskólans á Akureyri.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Brautskráning frá Háskólanum á Akureyri verður rafræn í ár vegna heimsfaraldursins. Fulltrúar skólans segja þau ætla að gera það besta úr aðstæðunum. Bifröst stefnir að hefðbundinni útskrift en Háskólinn í Reykjavík hefur ekki tekið ákvörðun.

Vegna aðstæðna og reglna um hámarksfjölda fólks sem má koma saman verða brautskráningar frá Háskólanum á Akureyri rafrænar í ár. Nemendur mæta því ekki á staðinn til að taka á móti skírteinum heldur fá þau afhent rafrænt í kringum brautskráningardag sem er 13. júní. Hópnum bíðst að taka formlega þátt í brautskráningahátíð í febrúar 2021 að því gefnu að slíkar samkomur verði þá leyfilegar. 

Nauðsynlegt að gera það besta úr aðstæðum

Á vef skólans kemur fram að unnið sé að nánari útfærslu. Ákvörðunin hafi verið erfið enda sé brautskráning mikil uppskeruhátíð fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Það þurfi að gera það besta úr aðstæðum og mikill metnaður hafi verði lagður í að reyna að fanga hinn sanna uppskeruanda með rafrænum hætti.

Stefna að hefðbundinni útskrift

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum í Reykjavík hefur ekki verið ákveðið hvernig brautskráningu þar verður háttað. Það sé verið að skoða nokkra kosti, meðal annars rafræna brautskráningu. Þá komi líka til greina að skipta hátíðinni niður í nokkrar athafnir. 

Vilhjálmur Egilsson rektors Háskólans á Bifröst segir hefðbundna útskrift á áætlun 20. júní. „Það er plan A, svo sjáum við þegar nær dregur hvort við þurfum að grípa í plan B.“ Brautskráning frá Háskólanum á Hólum verður með hefðbundnu sniði 5. júní, þó með einhverjum breytingum til að fylgja sóttvarnarreglum.