Lokun Vesturverks ekki óvænt í ljósi COVID

08.05.2020 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Forstjóri Landsnets segir það ekki koma á óvart að Vesturverk hafi lokað skrifstofu sinni á Ísafirði og frestað framkvæmdum við Hvalárvirkjun, þar sem raforkunotkun hefur minnkað töluvert í faraldrinum. Sveitarstjóri Árneshrepps segir miður hversu margir hrósi happi yfir seinaganginum við virkjunina.

Minni orkunotkun í Covid

Forsvarsmenn HS Orku, stærsta eiganda Vesturverks, sem vinnur að undirbúningi Hvalárvirkjunar á Ströndum, segja aðstæður á raforkumarkaði svo erfiðar að nauðsynlegt hafi verið að segja upp tveimur starfsmönnum og fresta framkvæmdum. 

„Við sjáum það núna í tengslum við Covid að það er minni flutningur, það hefur komið fram í fjölmiðlum að bæði hjá almenningi og litlum fyrirtækjum hefur dregist saman,” segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. „Það er ákveðin áhætta hjá stóru viðskiptavinunum, þannig að það þarf í sjálfu sér ekkert að koma á óvart.”

Leitt að sjá fólk hrósa happi yfir seinagangi

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir tíðindin mikil vonbrigði.  

„Það versta er, er að það eru svo margir sem hrósa happi yfir því að þetta skuli ganga svona hægt,” segir hún. „En það fólk, mest af því, er búsett annarsstaðar og veit ekki alveg á eigin skinni hvernig það er að lenda í rafmagnsleysi og vera bara yfir höfuð með lélegt rafmagn.”

Þar vísar Eva meðal annars til Landverndar og þeirra landeigenda á svæðinu sem hafa barist gegn virkjunaráformunum árum saman. Fjölmargar kærur, af ýmsum toga, hafa borist til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í lok apríl var tveimur kröfum um ógildingu framkvæmdaleyfis á Ófeigsfjarðarvegi hafnað og vísað frá. 

„Ég veit ekki alveg hvað úrskurðarnefndin gerir þegar svona kemur upp á. Hvort hún vísar þessu öllu frá eða byrja upp á nýtt. Ég bara veit það ekki.”

Aðrir möguleikar en Hvalárvirkjun

Guðmundur Ingi segir virkjunina vissulega hafa mikil áhrif á orkuöryggi Vestfjarða, verði hún að veruleika. „Það eru hins vegar aðrir möguleikar líka,” segir hann og nefnir meðal annars jarðstreng um Dýrafjarðargöng og yfirbyggingu tengivirkja við Breiðadal og á Ísafirði. Hann segir Landsnet leggja áherslu á hringtengingu og aukið öryggi á Vestfjörðum. 

„Og svo kannski í framtíðinni fer Hvalá að telja inn í þá mynd líka.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi