Hvergerðingar hóta að hætta viðskiptum við Arion banka

08.05.2020 - 14:49
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Kristi Blokhin - Shutterstock
Arion banki hyggst loka útíbú sínu í Hveragerði og sameina það útibúi bankans á Selfossi. Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir þessu harðlega og hótar því að endurskoða viðskipti sín við bankann verði ekki hætt við lokunina.

Áform bankans um að sameina útibúin tvö komu fram í tilkynningu Arion um breytta fyrirtækjaþjónustu sem send var út á miðvikudaginn. Í frétt Vísis um sameininguna kemur fram að henni fylgi ekki uppsagnir né aðrar breytingar á starfsemi bankans á Suðurlandi.

Lokun útibúsins var tekin fyrir við upphaf fundar bæjarráðs Hveragerðisbæjar í gær. Í bókun um málið segir: „Fjölmargir hafa getað treyst á persónulega og faglega þjónustu bankans síns. Hveragerðisbær er ört vaxandi bæjarfélag þar sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna á viðdvöl.“ Þá búi mikill fjöldi eldra fólks í bænum sem hafi sérstaklega treyst á þjónustu bankans og eigi ekki hægt um vik með að sækja þjónustu í önnur bæjarfélög.

Bæjarráðið segir Hveragerðisbæ hafa átt viðskipti við bankann frá stofnun hans. Dragi Arion ekki til baka áætlanir sínar um lokun í Hveragerði muni bæjarstjórn endurskoða viðskipti sín við bankann.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV