„Fjörgamalt fólk verður einn líkami aftur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Fjörgamalt fólk verður einn líkami aftur“

08.05.2020 - 11:19

Höfundar

„Ég hef aldrei orðið fyrir eins göldrum. Um leið og maður heyrir kjuðaslögin gerð af sömu persónu og aldarfjórðungi fyrr, þá fer líkamsminnið í gang,“ segir Margrét Kristín Blöndal söngkona um þann sögulega viðburð þegar hljómsveitin Risaeðlan reis upp frá dauðum á Ísafirði 2016.

Upprunalegur tilgangur með stofnun skrýtipoppbandsins Risaeðlunnar var að troða upp á einni menntaskólauppákomu á síðasta árinu í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og bæta þannig upp fyrir ófélagslyndið fyrstu árin. Sveitin náði hins vegar óvæntum vinsældum og starfaði í áratug með hléum.

Til að byrja með voru Risaeðlurnar þau Sigurður Guðmundsson gítarleikari, Ívar Ragnarsson bassaleikari, Margrét Örnólfsdóttir á hljómborð og Halldóra Geirharðsdóttir sem sá um söng og saxófónleik. Ári síðar bættist Margrét Kristín Blöndal, eða Magga Stína, við sem söngkona og Valur Gautason barði húðirnar. Þrátt fyrir vinsældirnar viðurkennir Magga Stína í sjónvarpsþættinum Poppkorn sem er á dagskrá RÚV í kvöld að sveitin hafi ekki verið með „meikdrauma“ eins og önnur bönd á þessum tíma. 

Árið 1990 kom út fyrsta breiðskífa sveitarinnar sem hét Fame and Fossils og hlaut hún góðar viðtökur. En hún varð ekki mjög langlíf eftir það. „Skömmu eftir að platan kemur út þá í raun og veru hætti Risaeðlan í eiginlegum skilningi. Kannski ári eftir, þó við höfum reynt að teygja lopann, því Dóra hætti í hljómsveitinni og fór í leiklistarskólann,“ rifjar Magga Stína upp. „Við héldum áfram að vera til sem hljómsveit og fengum inn harmonikkuleikara í staðinn fyrir hana en í raun og veru, þú veist, var risaeðlan hætt.“

Sveitin lýsti þó ekki yfir andláti fyrr en árið 1996 á útgáfutónleikum óvæntrar breiðskífu sveitarinnar sem hét Efta! Ekki stóð til að koma aftur fram undir merkjum Risaeðlunnar en sá óvænti atburður varð árið 2016 að sveitin tróð upp á Aldrei fór ég suður og tryllti lýðinn á Ísafirði. „Aldrei fór ég suður var nógu skrýtið og langt í burtu til að við nenntum að hittast, æfa lögin og spila,“ segir Halldór Geirharðsdóttir. „Okkur fannst það rosalega gaman.“

„Við höfðum ekki hist í aldarfjórðung og vissum ekkert hvað myndi gerast þegar við kæmum inn í æfingahúsnæðið. Mjög riskí bisness sko,“ segir Magga Stína. „En ég hef aldrei orðið fyrir eins göldrum. Um leið og maður heyrir kjuðaslögin gerð af sömu persónu og aldarfjórðungi fyrr, þá fer líkamsminnið í gang og fjörgamalt fólk verður eins og einn líkami aftur.“

Fjallað verður um myndbandið við lagið Hope með Risaeðlunni í Poppkorni - sögunni á bak við myndbandið klukkan 20:15 í kvöld. Myndbandinu er leikstýrt af Gísla Snæ Erlingssyni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Gáfu Hebba klisjuna og gerðu grín að honum í leiðinni

Tónlist

„Svo vantaði okkur góðan aumingja“

Menningarefni

„Þið skuldið þessum leikurum 5.000 krónur á haus“