Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fjölmiðlafulltrúi Pence greinist með COVID-19

08.05.2020 - 21:34
epa08408841 US Vice President Mike Pence listens during the National Day of Prayer Service at the White House in Washington, DC, USA, on 07 May 2020.  EPA-EFE/Stefani Reynolds / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Consolidated News Photos POOL
Katie Miller, fjölmiðlafulltrúi Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna, hefur verið greind með COVID-19 veikina. Hún er eiginkona Stephen Miller, ráðgjafa og ræðuritara Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Miller var viðstödd bænastund sem haldin var utandyra í gær. Meðal þátttakenda voru eiginkonur bæði Trumps og Pence. Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Trumps, sagði enga hættu á að Trump myndi sýkjast, né væri þetta til marks um að veikin kynni að breiðast út í Hvíta húsinu.

Miller er annar starfsmaður Hvíta hússins sem greinist með COVID-19. Fyrr í vikunni greindist starfsmaður Bandaríkjahers sem starfar í Hvíta húsinu með veikina. Sá er sagður sinna ýmsum viðvikum fyrir forsetann og því oft í samskiptum við hann.

Embættismenn í Hvíta húsinu staðfestu í dag að starfsmaður hefði veikst en veittu ekki frekari upplýsingar. Trump nefndi Miller með fornafni á fundi með þingmönnum repúblikana í dag og sagði að hún hefði greinst með veikina. Trump sagði að hún hefði verið prófuð oft áður og þá aldrei komið fram merki um smit. Miller staðfesti svo í samtali við bandaríska sjónvarpsstöð að hún hefði smitast en sýndi engin einkenni. 

Veikindi Miller höfðu áhrif á ferðalög Pence í dag. Hann flaug til Des Moines í Iowa í dag. Flugvélin tók þó ekki á loft fyrr en sex starfsmenn varaforsetaembættisins höfðu verið beðnir um að yfirgefa vélina. Það er fólk sem hafði verið í samskiptum við Miller nýlega. Embættismaður sagði að það hefði þó aðeins til marks um mikla varkárni. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pence, varaforseti hans, eru prófaðir daglega. Þeir hafa engin merki sýnt um COVID-19 veikina.