Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Feðgar handteknir fyrir morðið á Ahmaud Arbery

08.05.2020 - 20:30
Mynd: EPA-EFE / GLYNN COUNTY SHERIFF
Feðgar voru handteknir í Georgíu í Bandaríkjunum í gær grunaðir um að hafa skotið til bana þeldökkan mann sem var úti að skokka. Mikil reiði ríkir vegna árásarinnar, sem var gerð í lok febrúar.

Ósk lögmanns fjölskyldu Ahmaud Arbery rættist í gær þegar feðgarnir Gregory og Travis McMichel voru handteknir og ákærðir fyrir að hafa skotið hinn 25 ára Arbery til bana í lok febrúar. 

Mikil reiði hefur kraumað í Georgiu og reyndar víðar yfir örlögum Arberys. Ekki síst eftir að birt var myndskeið sem sýnir McMichel feðgana skjóta hann til bana.

Í lögregluskýrslu segir að feðgarnir hafi séð Arbery á hlaupum og talið hann líkjast manni sem var eftirlýstur fyrir innbrot. Þeir hafi hleypt af eftir að Arbery hafi ráðist að þeim. Þær skýringar samþykkir lögmaður fjölskyldu Arberys ekki, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV