Ennþá veik þótt henni sé „batnað“ af COVID-19

08.05.2020 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Elísabet Ögn Jóhannsdóttir var sú fyrsta á Norðurlandi til að greinast með COVID-19. Það gerðist 15. mars. Nú, nærri tveimur mánuðum og tveimur neikvæðum COVID-prófum seinna , er hún enn veik. Brúðkaupinu sem átti að vera í júni hefur verið frestað og sömuleiðis brúðkaupsferðinni. Hún og verðandi eiginmaður hennar ætluðu til Norður-Ítalíu.

Elísabet Ögn skrifaði grein sem birtist á vef Stundarinnar í dag.  Áður en hún greindist með COVID-19 hafði hún verið veik í tvær vikur. Eftir að hafa verið í einangrun og undir eftirliti COVID-göngudeildarinnar útskrifaðist hún í lok mars, þá búin að vera hress í tvær vikur.

En þá voru veikindin bara rétt að byrja. Hún fór að fá höfuðverki, glímdi langvarandi þreytu og svo hita sem hefur stundum verið hærri en þegar hún var með kórónuveiruna.  Í dag er hún með hita sjöunda daginn í röð.  Stundum koma nokkrir góðir dagar á milli þar sem hún fyllist von um að vera loks batnað en þá slær henni niður . 

Elísabet Ögn

Elísabet segist í samtali við fréttastofu hafa sett sig í samband við aðra konu sem hún sá umfjöllun um og er í svipaðri stöðu og hún. Þær eru nú COVID-vinkonur þótt þær hafi aldrei hist. „Við tékkum á hvor annarri og erum í samband.“ Þá er hún hluti af lokuðum COVID-hópi þar sem fólk deilir reynslu sinni af veikindunum. „Við eigum mörg hver sameiginlegt að vera í sífellu að veikjast aftur eftir að hafa talið okkur vera á batavegi,“ segir hún í grein sinni.

Elísabet segir að á síðustu vikum hafi birst greinar erlendis um fólk sem glími við veikindi löngu eftir að það átti að vera laust við veiruna.  Það séu að dúkka upp netsamfélög um allan heim þar sem fólk talar saman um þessa örvæntingu, að eiga að vera batnað en vera það samt ekki, og það upplifir eins og það sé eitt í myrkrinu.

Elísabet ætlaði að gifta sig í sumar en brúðkaupinu hefur verið frestað. Það verður heldur ekkert af brúðkaupsferðinni til Norður-Ítalíu. Hún segist hafa viljað með grein sinni varpa  ljósi á að það er fólk sem fékk þessa veiru, fólk sem er ekki lífshættulega veikt, en er ekki eins og það var. „Sumir eru ekki svo heppnir að geta jafnað sig af þessu. Við vonum auðvitað það besta og maður má ekki missa sig í bölmóðnum.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónalæknir COVID-göngudeildarinnar á Landspítalanum, segir í samtali við fréttastofu að hann viti ekki um mörg tilfelli þar sem fólk sé að glíma við svona langvarandi veikindi eftir veiruna. Þau séu þó einhver. Það sé hins vegar vel þekkt að fólk geti verið lengi að ná sér eftir veirusýkingar og það nefnist Post Viral Syndrome. Til að mynda geti fólk fengið svokallaða fylgigigt. Hann hvetur þá sem enn glíma við veikindi þótt þeim eigi að vera batnað af COVID-19 að hafa samband við heilsugæsluna sína. Ef þær geti ekki hjálpað þá muni COVID-göngudeildin reyna það.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV