VesturVerk dregur tímabundið úr starfsemi

07.05.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
VesturVerk hefur ákveðið að draga tímabundið úr starfsemi félagsins vegna markaðsaðstæðna. Skrifstofu fyrirtækisins á Ísafirði hefur verið lokað og tveimur starfsmönnum sem þar voru hefur verið sagt upp.

Jóhann Snorri Sigurbergsson forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, helsta eiganda VesturVerks, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en fyrst var greint frá þessu á vef BB. Jóhann segir að áfram verði unnið að rannsóknum vegna virkjunarkosta, þar á meðal Hvalárvirkjunar, og haldið áfram að vinna með skipulagsyfirvöldum á svæðinu.

Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdatjóri VesturVerks lætur af störfum 1. ágúst en situr áfram í stjórn.

Jóhann segir að aðstæður á markaði hafi tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum og því hafi verið ákveðið að draga tímabundið úr starfseminni. Hann ítrekar að ekki hafi verið fallið frá áformum um smíði Hvalárvirkjunar þó verkinu kunni að seinka. 
 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi