Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þetta var góð hugmynd hjá Má eftir allt saman“

Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson / Skjáskot

„Þetta var góð hugmynd hjá Má eftir allt saman“

07.05.2020 - 09:46

Höfundar

Þegar tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson hringdi í vinkonu sína og kollega, Ivu Marín Adrichem, og bar undir hana að gera með sér reggíútgáfu af laginu Barn með dægurlagagoðsögninni Ragga Bjarna, fannst henni hugmyndin að eigin sögn ömurleg í fyrstu. Hún sló þó til og sér alls ekki eftir því.

Már Gunnarsson og Iva Marín Adrichem sendu á dögunum frá sér reggískotna útgáfu af dáðu dægurlagi Ragnars Bjarnarsonar, laginu Barn. Már hefur verið að gera það gott á ýmsum sviðum síðustu ár. Hann er afrekssundkappi og sigraði jólalagakeppni Rásar 2 síðustu jól. Ívu þekkja margir landsmenn. Hún komst í úrslit söngvakeppninnar í ár með laginu Oculis Videre. Þau hafa verið vinir lengi, eða í næstum áratug, en sameinast fyrst núna í tónlistinni. 

Þegar Már horfði á minningarþátt um Ragga Bjarna sem sýndur var á RÚV eftir fráfall hans og nefnist Við bjóðum góða nótt, fór hann fyrst að langa að gera ábreiðu af laginu. Það var þó ekki fyrr í heimsfaraldrinum sem honum fór að leiðast svo að komast ekki út og á sundæfingar sem hann ákvað að hrinda verkefninu í framkvæmd. Það lá nokkuð beint við að hafa samband við Ivu og fá hana með sér í dúett en Iva tók ekki vel í hugmyndina í fyrstu. „Ég hringdi í Ivu á Messenger og sagði: Hey, eigum við ekki að gera reggíútgáfu af laginu Barn eftir Ragnar Bjarnason?“ rifjar Már upp. „Já og mér fannst þetta fyrst ömurleg hugmynd,“ svarar Iva um hæl. „Ég hélt hann væri endanlega orðinn klikkaðari en hann er nú þegar.“

En Iva lét til leiðast og sér alls ekki eftir því. „Það var ekki fyrr en við mættum í stúdíó sem ég áttaði mig á að þetta gæti orðið flott. Þetta var mjög góð hugmynd hjá Má eftir allt saman.“ 

Þau eru að vonum ánægð með útkomuna en vinsældirnar hafa verið enn meiri en þau óraði fyrir. Lagið til að mynda komið með hátt í 90 þúsund áhorf á Facebook en er líka komið út á Youtube og Spotify. 

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Má og Ivu í Popplandi á Rás 2.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Eina opinbera Eurovision-nördið í Hollandi

Tónlist

Söngelsk systkini eiga sigurlag jólalagakeppni Rásar 2