Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Saga The Stranglers á Íslandi rifjuð upp

07.05.2020 - 08:58
Mynd með færslu
The Stranglers á hátindi frægðarinnar. Dave Greenfield er annar frá hægri. Mynd: UA
Tónlistarmaðurinn Dave Greenfield lést nýverið af völdum COVID-19, 71 árs að aldri. Greenfield er þekktastur fyrir að hafa leikið á hljómborð í hljómsveitinni The Stranglers. Óhætt er að tala um The Stranglers sem Íslandsvini en sveitin kom fyrst til landsins árið 1978 og síðast árið 2007.

The Stranglers var í grunninn pönkhljómsveit. Fágaður hljómborðsleikur Greenfield var afar einkennandi fyrir sveitina og Greenfield samdi einnig vinsælasta lag hennar, Golden Brown. 

Hljómsveitin var stofnuð árið 1974 í Guildford á Englandi og hét upphaflega Guildford Stranglers. Fyrsta plata sveitarinnar kom út árið 1977 og heitir Rattus Norvegicus. Á henni er meðal annars lagið Peaches sem sló í gegn. Árið 1978 kom sveitin fyrst til Íslands. Þá höfðu þeir þegar gefið út tvær breiðskífur og sú þriðja væntanleg. Það voru mikil tíðindi fyrir íslenska pönkaðdáendur að fá svo vinsæla erlenda pönksveit til landsins. Margir forsprakkar íslensku pönksenunnar hafa nefnt tónleika The Stranglers á Íslandi sem fyrstu tónleikana sem þeir fóru á. Athygli vekur að eitt af upphitunaratriðum The Stranglers á tónleikunum voru Halli og Laddi. Þursaflokkurinn átti eining að koma fram en þar sem sveitinni var neitað um hljóðprufu hætti hún við. 

Næstu tónleikar The Stranglers á Íslandi voru í Íþróttahúsinu í Kópavogi árið 2004 og hljómsveitin Fræbblarnir var þá fengin til að hita upp. The Stranglers komu svo til Íslands í þriðja sinn árið 2007 og héldu þá tónleika á skemmtistaðnum NASA. 

Eftirlifandi liðsmenn The Stranglers hafa minnst félaga síns með hlýhug síðustu daga og segja að heimurinn hafi svo sannarlega misst mikinn tónlistarsnilling og þeir sjálfir góðan vin. 

Fjallað verður um The Stranglers í Konsert á Rás 2 kl. 22 í kvöld og upptaka frá tónleikum sveitarinnar á NASA frá árinu 2007 verður spiluð. 

olafurpg's picture
Ólafur Páll Gunnarsson
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson