Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt frá Má og Ívu, Hreimi og Vestfjarðaundrinu Ouse

Mynd: Post-Dreyfing / Sætar stelpur

Nýtt frá Má og Ívu, Hreimi og Vestfjarðaundrinu Ouse

07.05.2020 - 16:00

Höfundar

Það er blásið til veislu þennan fimmtudag í Undiröldunni og fjölbreytni íslensks tónlistarlífs könnuð ofan í kjölinn. Á boðstólum er pjakkur að vestan, ábreiða af Ragga Bjarna og fyrsta sólólag frá Hreimi síðan 2012 og margt fleira.

Már og Íva - Barn

Tónlistarfólkið Már Gunnarsson og Íva Adrichem sem eru þjóðinni kunn eftir þátttöku sína í Jólalagakeppni Rásar 2 og Söngvakeppninni hafa heldur betur slegið í gegn á samfélagsmiðlum. Ástæða þess er nýjasta lag þeirra sem kom út í vikunni og er reggí-útgáfa af lagi Ragnars Bjarnasonar Barn sem hann samdi við ljóð Steins Steinarr.


Ouse ft. Powfu & Indii G - My Mattress

Ásgeir Bragi Ægisson er 19 ára pjakkur að vestan sem starfar undir nafninu Ouse og hefur heldur betur slegið í gegn á Spottinu með sínum afslappaða kokteil af lo-fi og hipphoppi. Tölurnar hjá Ouse á streymisveitunni eru reyndar svo rosalegar að hann, án þess að láta nokkurn mann vita, er orðinn einn allra vinsælasti tónlistarmaður landsins á þeim miðli. 


Elín Hall - Augun mín

Augun mín er annað lag Elínar Hall sem hún sendir frá sér af væntanlegri plötu hennar Með öðrum orðum sem er væntanleg í júní. Lagið Augun mín er eftir Elínu en með henni eru Reynir Snær Magnússon á gítar og bassa, Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir á trommur og slagverk en á píanó og rhodes spilar Magnús Jóhann Ragnarsson.


Kristín Sesselja - What would I do without you?

Tónlistarkonan Kristín Sesselía hefur sent frá sér lagið What would I do without you? af væntanlegri plötu sinni Break Up Blues en í laginu nýtur hún aðstoðar Baldvins Snæs Hlynssonar.


Hreimur - Miðnætursól

Það þekkja allir landsmenn Hreim Örn úr hljómsveitinni Landi og sonum og fleiri verkefnum en í laginu Miðnætursól syngur hann og spilar á kassagítar eins og stundum áður. Hreimur kallaði til Vigni Snæ Vigfússon til að sjá um útsetningu lagsins sem er fyrsta sólólag hans síðan 2012 og verður að finna væntanlegri plötu hans sem kemur út síðar á árinu.


Lindy Vopnfjörð - State of the Heart

Vestur Íslendingurinn Lindy Vopnfjörð sem hefur verið tengdur við hljómsveitina NýDönsk hefur sent frá sér lagið State of the Heart en það er fyrsti söngull af væntanlegri áttundu breiðskífu hans sem kemur út í lok maí.


Skoffín - Sætar stelpur

Á dögunum kom út lagið Sætar stelpur með hljómsveitinni Skoffín.Lagið verður á væntanlegri plötu Skoffíns, Skoffín hentar íslenskum aðstæðum, sem kemur út hjá Post-dreifingu í lok maí.