Kærur vegna vegar um Teigsskóg komu ekki á óvart

07.05.2020 - 14:05
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
 Mynd: Fréttastofa
G. Pétur Matthíasson, upplýsingarfulltrúi Vegagerðarinnar, segir kærur vegna framkvæmdaleyfa Reykhólahrepps vegna áforma um að leggja veg um Teigsskóg ekki hafa komið á óvart. Ásakanir í þeim varðandi Vegagerðina séu ósannar.

Báðar kærurnar eru margþættar. Í þeim báðum er því haldið fram að Vegagerðin hafi þvingað leiðinni í gegnum Teigsskóg upp á sveitarstjórnina. Það hafi hún gert með því að segja að ef dýrari leið yrði fyrir valinu myndi aukatilkostnaður falla á sveitarfélagið.

G. Pétur segir þessar ásakanir hafa komið fram áður og þær séu jafn ósannar nú og þær voru þá.

„Við höfum bent á það að stjórnmálamennirnir hafa sett töluvert mikla peninga í þessa vegagerð um Gufudalssveitina en þeir hafa ekki verið tilbúnir til þess að setja eða leggja til fjármagn sem fæli í sér miklu dýrari leið. Það er það sem við höfum upplýst sveitarstjórnina um en við höfum aldrei sagt eða hótað því að sveitarstjórnin myndi borga mismuninn enda er það algjörlega óraunhæft í þessu tilviki,“ segir G. Pétur.

Hægt að gera heilsársveg yfir Dynjandisheiði fyrir mismuninn

Sjö milljarðar eru eyrnamerktir verkefninu á samgönguáætlun. Leið fyrir Reykjanes og yfir utanverðan Þorskafjörð eða leið með jarðgöngum undir Hjallaháls yrði mörgum milljörðum króna dýrari lausn. Mismunur á kostnaði þessara leiða nemur sömu upphæð og það kostar að gera veg um Dynjandisheiði að heilsársvegi, samkvæmt vef Vegagerðarinnar

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi