Íslenskt listafólk færir hafið inn í miðja Berlín

Ljósmyndir frá sýningunni Hafið í Felleshus, menningarhúsi norrænna sendiráða, í Berlín.
 Mynd: Íslenska sendiráðið í Berl?

Íslenskt listafólk færir hafið inn í miðja Berlín

07.05.2020 - 15:27

Höfundar

Listaverk eftir á fjórða tug íslenskra listamanna, sem á einn eða annan hátt tengjast hafinu, voru til sýnis í menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín. Á meðan dyrnar að miðstöðinni voru læstar vegna COVID-19-faraldursins stóð fimmtán metra há innsetning Finnboga Péturssonar vaktina fyrir utan.

Um miðjan febrúar var opnuð stór sýning á íslenskri list í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín. Sýningin heitir Hafið og þar er að finna verk eftir fjölda íslenskra listamanna, þvert á margar listgreinar.

Ljósmyndir frá sýningunni Hafið í Felleshus, menningarhúsi norrænna sendiráða, í Berlín.
 Mynd: Íslenska sendiráðið í Berl?
Sýningunni var vel tekið þegar hún opnaði í febrúar.

Áður en Felleshus þurfti að skella í lás vegna COVID-19  fengu gestir tækifæri til að dýfa sér í haf íslenskra lista og menningar. Íslenska sendiráðið í Berlín dó ekki ráðalaust í faraldrinum og bauðst fólki að njóta þess sem sýningin hafði upp á að bjóða í gegnum samfélagsmiðla.

Á meðan stóð fimmtán metra há innsetning Finnboga Péturssonar, Haf, vaktina fyrir utan bygginguna. Eins og Finnbogi er gjarn á vinnur hann með hljóð í þessu verki. Hljóðbylgjur eru leiddar í tjörn í sendiráðsgarðinum, þar birtast þær sem gárur á vatnsfletinum, sem svo er endurvarpað á 900 milljóna ára gamlan klett á framhlið norska sendiráðsins. Verkið er síbreytilegt því að veður og vindar hafa áhrif á það eins og á hafið sjálft.

Mynd: Íslenska sendiráðið í Berl? / Íslenska sendiráðið í Berl?
Hafið eftir Finnboga Pétursson.

Meðal annarra verka eru Saltscape og Seascape eftir Rögnu Róbertsdóttur. Efniviðinn sækir Ragna í íslenska náttúru og í verkunum beinir hún athyglinni að náttúrulegri framvindu og hringrás. Á sama tíma er gripið inn í ferlið svo efnið tekur á sig aðra og nýja mynd. Einnig má nefna röðina Talsverður sjór eftir Gjörningaklúbbinn, verk sem ber með sér húmor og leikgleði klædda í bláan varalit, þó undirtónninn sé alvarlegur. Heimildarmyndin Kaf eftir þær Önnu Rún Tryggvadóttur, Elínu Hansdóttur og Hönnu Björk Valsdóttur var einnig sýnd á hátíðinni.

Ljósmyndir frá sýningunni Hafið í Felleshus, menningarhúsi norrænna sendiráða, í Berlín.
 Mynd: Íslenska sendiráðið í Berl?
Finnbogi Pétursson ræðir við áhugasaman sýningargest um verkið Nodes.

Tónlist á einnig sinn sess á sýningunni í Berlín. Þar var hægt að hlusta á þrettán lög og tónverk, þar af tvö tónlistarmyndbönd með Víkingi Heiðari Ólafssyni og Mammút. Aðrir tónlistarmenn á sýningunni eru Ásgeir Trausti, Björk, Bubbi Morthens, Emiliana Torrini, Gyða Valtýsdóttir, Hildur Guðnadóttir, Högni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Of Monsters and Men, Ólafur Arnalds og Samaris.
 

Frá sýningunni Hafið í Felleshus Berlín.
 Mynd: Sendiráð Íslands í Berlín
Hægt er að glugga í íslenskar bókmenntir á sýningunni.

Gestir gátu einnig kippt með sér hugvekjandi ljóðum, eða lesið á staðnum, eftir Lindu Vilhjálmsdóttur, Ragnar Helga Ólafsson, Sjón og Steinunni Sigurðardóttur. Hægt var að glugga í þýdda bókakafla úr bókum Hallgríms Helgasonar og Andra Snæs Magnasonar, Auðar Jónsdóttur, Jóns Kalmans Stefánssonar og Sigríðar Hagalín Björnsdóttur.

Íslensk hönnun var þar að auki til sýnis. Má þar nefna Fender Chair frá Arkibúllunni, Uggi Lights þeirra Daggar Guðmundsdóttur og Fanneyjar Antonsdóttur, Skepnusköpun frá Hugdettu og Sipp og hoj frá Þórunni Árnadóttur.  Samhliða sýningunni var kynning á vörum og nýsköpun á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarafurða.

Stefnt er að því að Felleshus opni dyr sínar á ný 10. maí. Þó er ómögulegt að segja til um hvort af því verður. Sýningartími Hafsins hefur verið framlengdur til 15. maí. Sýningarstjóri er Eva Þengilsdóttir.