Icelandair sækir vörur til Kína og flytur til Ameríku

07.05.2020 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr/BriYYZ
Flugvél Icelandair er nú á leið til Kína að sækja lækningavörur sem flytja á til aðila í heilbrigðisþjónustu í Norður-Ameríku. Um nýjan samning við flugfélagið er að ræða, en það er þegar að sinna svipuðum fraktflutningum milli Kína og Þýskalands.

Þessi nýi samningur kveður á um tíu flug á milli Kína og New York í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada með lækninga- og hjúkrunarvörur. Möguleiki er á að framlengja þann samning. Verkefnið er ekki í gegnum flutningafyrirtækið DB Schenker, sem samdi við Icelandair um minnst 45 fraktflug á milli Sjanghæ í Kína og München í Þýskalandi í lok apríl, en frá Þýskalandi er vörunum svo dreift víðar um Evrópu. 

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að Icelandair noti tvær Boeing 757-300 vélar, sem breytt hefur verið í fraktvélar, í þetta nýja verkefni. Þær eru ekki eins langdrægar og 767 vélarnar sem fljúga til Þýskalands og því þarf að millilenda bæði í Keflavík og í Kasakstan á milli Kína og Norður-Ameríku. 

Ásdís segir að flókið sé að fá leyfi til slíkra flutninga en margar fyrirspurnir hafi borist félaginu um svona verkefni, ekki síst eftir að félagið fór fyrst að sækja vörur til Kína. Hún taldi að þetta nýja verkefni væri ekki einungis bundið við Sjanghæ og því gætu vélar Icelandair farið á fleiri áfangastaði í Kína að sækja vörur.

Stórum hluta starfsmanna Icelandair var sagt upp í síðasta mánuði, en Ásdís vissi ekki hvort þær áhafnir sem sinna þessu nýja verkefni séu að vinna uppsagnarfresti.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi