Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hlutabótalögum verður breytt til að hindra misnotkun

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hlutabótalögum verði breytt til að koma í veg fyrir að stöndug fyrirtæki nýti sér hana til þess að greiða niður laun starfsmanna sinna. Fyrirtækin Össur, Hagar og Skeljungur hafa öll nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda til að standa straum af hluta af launakostnaði starfsmanna um leið og þau greiddu eigendum sínum arð eða keyptu eigin bréf.

„Það var auðvitað alveg ljóst þegar þessu fyrirkomulagi var komið á í miklum hraði að það var fyrst og fremst hugsað til að tryggja lífsafkomu fólks og viðhalda ráðningasambandi,“ segir Katrín.  Ákveðið hafi verið að hafa úrræðið opið til þess að engar hindranir væru sem kæmu í veg fyrir það markmið. „Að sjálfsögðu þá var ekki ætlunin sú að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna,“ segir hún.

Katrín segir að hlutabótaleiðin verði framlengd með lagabreytingu. „Og þá munu verða sett inn skilyrði sem hafa verið í öðrum aðgerðum stjórnvalda til að mynda hvað varðar arðgreiðslur og kaup í eigin bréfum og fleira,“ segir hún. 

Greiddu sér arð og settu fólk í hlutastarf með bætur

 

Hagar hafa nýtt sér hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar fyrir hluta starfsmanna hjá fyrirtækjum sem eru með skerta starfsemi frá því um mánaðamótin mars-apríl. Þann 30. mars og 6. apríl keypti félagið eigin bréf af hluthöfum en frá því í lok febrúar hefur félagið keypt eigin bréf fyrir samanlagt næstum hálfan milljarð. Ekki fengust upplýsingar hjá fyrirtækinu um hve háa upphæð Hagar hefðu sótt í ríkissjóð. Samkvæmt upplýsingum frá Högum var ákveðið að fara hlutabótaleiðina til þess að verja störf. 

Forstjóri Skeljungs sagði í samtali við Stundina að Skeljungur hafi þegið 7-8 milljónir af launakostnaði félagsins úr ríkissjóði í apríl í gegnum hlutabótaleiðina. Sex dögum áður fengu hluthafar greiddar 600 milljónir í arð samkvæmt samþykkt aðalfundar í mars.  Auk þess keypti félagið eigin bréf fyrir 186 milljónir.

Stoðtækjafyrirtækið Össur greiddi eigendum sínum 1,2 milljarða króna arð skömmu áður en fyrirtækið minnkaði starfshlutfall 165 starfsmanna á Íslandi niður í 50 prósent í gegnum hlutabótaleið stjórnvalda. 

Fréttastofa hefur hringt og sent skilaboð með ósk um viðtal á Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, Árna Pétur Jónsson, forstjóra Skeljungs og Jón Ásgeir Jóhannsson stjórnarformann, Finn Árnason forstjóra Haga og Ernu Gísladóttur stjórnarformann. Ekkert þeirra hefur svarað fyrirspurnum nema Finnur og Jón sem hafa hafnað viðtalsbeiðni. 

Viðurlög í breyttum lögum

Spurð hvort hún muni óska eftir því við þessi fyrirtæki að þau endurgreiði ríkissjóði það fé sem þau hafa sótt þangað segir Katrín að ekki verði hægt að breyta lögunum afturvirkt. Inn í þau verði þó sett skýr viðurlagaákvæði. Spurð hvort fyrirtækin væru að misnota sér þetta úrræði segir Katrín: „Ég hefði að sjálfsögðu gefið mér það að þetta yrði nýtt eingöngu af þeim fyrirtækjum sem á þyrftu að halda. Það var mjög skýrt frá upphafi að þetta væri ekki almennt úrræði fyrir fyrirtæki sem ekki þyrftu á að halda.“

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem þetta er gagnrýnt og áréttað að opinber stuðningur til fyrirtækja vegna áhrifa COVID-19 eigi ekki að vera til þess gerður að fyrirtæki sem ekki þurfi á honum að halda vaði í sjóði samfélagsins að vild, eins og þar er orðað.