Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur ekki undan við að svara framleiðendum

Mynd: Rúv.is/Eddi / Rúv.is/Eddi

Hefur ekki undan við að svara framleiðendum

07.05.2020 - 19:29

Höfundar

Tökur á sjónvarpsþáttunum Kötlu eru komnar á fullt á eftir tímabundið hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Leikstjórinn segir þetta stærsta sjónvarpsverkefni sem unnið hafi verið á Íslandi og hafa upptökurnar vakið áhuga framleiðenda um allan heim.

Það er streymisveitan Netflix sem framleiðir þættina sem fjalla um íbúa í Vík sem neyðast til að yfirgefa bæinn vegna eldgoss í Kötlu. Öll framleiðsla fer fram á Íslandi en mikil leynd hvílir yfir verkefninu og fæst til að mynda ekki uppgefið hverjir leika í þáttunum. Framleiðslu lýkur í lok árs og hefjast sýningar á næsta ári. Undanfarna daga hafa tökur staðið yfir í Vík og nágrenni og í dag var teymið á bökkum Markarfljóts.

Mikið umfang og mikill metnaður

 „Ég held að þetta sé stærsta verkefni sem hefur verið gert hérna. Alla vega á íslensku og með því stærra sem hefur verið gert yfir höfuð vegna þess að oft þegar þessi stóru verkefni eru að koma þá er bara hluti af verkefninu gerður hérna,“ segir Baltasar Kormákur sem leikstýrir þáttunum. „Þetta eru sérstakar aðstæður. Maður getur ekkert labbað að goslúkki hér og þar. Þetta er ákveðinn heimur sem við erum að búa til. Þetta gerist á jökli, ofan í sprungum, í höllum þannig að þetta er mikið umfang og mikill metnaður.“

Stöðva þurfti tökur í rúmlega tvær vikur vegna COVID-19 en Baltasar segist hafa náð að sannfæra Netflix um að halda áfram tökum innan þeirra marka sem sóttvarnareglur leyfðu. Stúdíóið var hólfað niður þannig að ekki komust fleiri en 20 manns fyrir í hverju hólfi, allir eru hitamældir á hverjum degi og aðrar sóttvarnir í hávegum hafðar.

Hringt hvaðanæva að úr heiminum

Aðeins tvö verkefni af þessari stærðargráðu eru í gangi á heimsvísu, á Íslandi og í Suður-Kóreu. Baltasar segist vart hafa undan að svara fyrirspurnum um verkefnið, bæði frá aðilum sem eru áhugasamir um að taka upp hérlendis svo og þeim sem vilja fá ráðleggingar um hvernig haga eigi framleiðslunni eftir að faraldurinn er genginn yfir.

„Þetta hefur vakið gríðarlega athygli og í raun og veru miklu meiri en ég reiknaði með. Ég var í raun bara að reyna að finna leið til að halda áfram og gera það á öruggan hátt en þetta hefur orðið til þess að það hefur verið hringt alls staðar úr heiminum, stúdíóin, Film in London og ég veit ekki hvað og hvað. Það væri frábært ef við gætum opnað dyrnar fyrir erlendu tökuliði hérna þegar það er ljóst að faraldurinn er genginn yfir.“

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Allir skimaðir fyrir COVID-19 á tökustað Kötlu

Norður Ameríka

Sjónvarp- og kvikmyndaframleiðsla í frosti - nánast

Kvikmyndir

Hollywood horfir til Íslands eftir yfirlýsingu Netflix

Mannlíf

Netflix nýtir sér góðan árangur Íslands gegn COVID-19