Gæti kostað 300 milljónir að laga Fjarðabyggðarhöllina

07.05.2020 - 09:54
Þakið á stærsta íþróttamannvirki Austurlands er að ryðga í sundur þótt húsið sé aðeins 14 ára gamalt. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð þurfa að ákveða hvort þau fara ódýra leið til að gera við eða dýrari, sem gæti kostað 300 milljónir króna.

Fjarðabyggðarhöllin var tekin í notkun árið 2006 og er níu þúsund fermetrar. Fjarðabyggð er í miðjum klíðum að skipta út gervigrasinu í höllinni sem var komið til ára sinna og óhæft að mati KSÍ. Þakið er stærra vandamál og sums staðar er komin á það göt. „Þar er þetta ryð sem kemur vegna þess að járnið hafði ekki þá áskildu kosti sem það átti að hafa [samkvæmt útboðslýsingu]. Þannig að við þurfum að skoða hvað við viljum gera. Við getum farið auðveldari leið eða við getum líka farið stærri leið og reynt að klæða höllina þannig að hún haldi hita,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Ódýrari leiðin myndi fela í sér viðgerðir á skemmdum og að mála þakið, það myndi kosta um 90 milljónir. Dýrari leiðin yrði að klæða þakið og einangra. Það myndi kosta um þrefalt meira eða 250-300 milljónir. Karl Óttar segir að ef ekkert yrði að gert færi þakið að leka meira. „Það er ekkert annað sem gerist, fer bara að rigna inn.“ Aðspurður um hvort sveitarfélagið eigi kröfu á þá sem seldu því bygginguna segir hann. „Við höfum ekkert skoðað það sérstaklega en ég held að þeir aðilar sem byggðu þetta séu ekki til staðar lengur þannig að ég held að það sé ekki á neinn að sækja.“

Fjarðabyggðarhöllin er óeinangrað stálgrindarhús og virðist drekka í sig kulda. Með því að klæða þakið og einangra yrði hægt að slá tvær flugur í einu höggi. „Við gætum leyst þetta með gallann í þakinu og síðan þennan kulda sem er í höllinni og gerir það að verkum að á sumrin til dæmis er mun kaldara hér inni en úti. Þetta hefur verið kallað oft frystikistan. Ef við myndum klæða það þá myndum við losna við það vandamál.“

Horfa á frétt

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV