Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forspá samsýning boðaði Þögult vor

Mynd: RÚV / RÚV

Forspá samsýning boðaði Þögult vor

07.05.2020 - 13:56

Höfundar

Samsýning sem fjallar um umhverfisvá vegna loftslagsbreytinga var opnuð í Hafnarborg í janúar. Sýningin var skipulögð og sett upp áður en kórónuveirufaraldurinn braust út en titillinn var þó merkilega forspár um það sem var fram undan: Þögult vor.

Á sýningunni má sjá verk eftir þær Lilju Birgisdóttur, Herttu Kiiski og Katrínu Elvarsdóttur. Þær leitast við að kalla fram ljúfar og hlýjar tilfinningar gagnvart náttúrulegu umhverfi á barmi glötunar. „Það var mikilvægt fyrir okkur að þessi sýning tengdist ekki skömm heldur ást og kærleik,“ segir Daria Sól Andrews sýningarstjóri. „Það er erfitt að finna einfaldar lausnir þegar kemur að umhverfismálum og loftslagsbreytingum. Þess vegna var mikilvægt fyrir okkur að sýna að hvert einasta skref skiptir máli þótt við séum ekki fullkomin.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá sýningunni

Á sýningunin er meðal annars verk eftir Lilju Birgisdóttur sem nefnist Rauða serían. Hún samanstendur af myndum af sex vinsælum ferðamannastöðum sem eru á rauðum lista Náttúrustofnunar yfir staði sem eiga á hættu að tapa sérkennum sínum vegna ágangs. Lilja framkallaði myndir af stöðunum af filmum í eigu Þjóðminjasafnsins og Ljósmyndasafns Reykjavíkur og handmálaði með rauðbleikum lit ofan í myndirnar til að undirstrika yfirvofandi vá. „Svo er ég líka með ilm fyrir hvern stað sem er unninn út frá plöntum, blómum og trjám sem vex á hverjum þeirra. Þefskynið er elsta skynfærið og beintengt við minnið. Þegar þú ert kominn með þennan ilm tengir fólk miklu betur við staðinn.“

Sýningin var opnuð í janúar og átti að vera lokið en svo skall faraldurinn á. Sýningin var framlengd fram á vor og er nýopnuð aftur eftir að slakað var á samkomubanni. 

„Maður upplifir hana á allt annan hátt,“ segir Daria Sól. „Hún tengist þessu málefni á heppilegan hátt af því að við vorum að reyna að koma þessari orku á framfæri með ást og kærleika gagnvart náttúrunni og samfélaginu. Þannig að mér finnst sýningin enn mikilvægari núna eftir að heimsfaraldurinn reið yfir.“ Lilja tekur undir það: „Við erum að tala um áhrif mannsins á jörðina og það sem við sjáum á tímum COVID  er að við getum minnkað mengun.“

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Myndlist

„Fyrir þá sem trúa á samstöðu og góðmennsku“

Myndlist

Geymslurými Listasafns Íslands sprungið

Umhverfismál

Plast getur verið draumaefni