Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölga kjörstöðum um fjóra – kosið í Kringlunni

07.05.2020 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - rúv
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að fjölga kjörstöðum í Reykjavík um fjóra, fyrir forsetakosningarnar sem fara mögulega fram í sumar. Nýju kjörstaðirnir eru Vesturbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Dalskóli og Kringlan. Fulltrúar meirihlutans, Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins lögðu fram bókun þar sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er hvattur til þess að gera íbúum höfuðborgarsvæðisins kleift að kjósa utan kjörfundar í Reykjavík, en ekki bara í Smáralind.

Fundargerð borgarráðs frá fundinum í dag hefur ekki verið birt, en Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

„Í síðustu kosningum ákvað sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu því miður að verða ekki við háværu ákalli um að fjölga kjörstöðum til að kjósa utan kjörfundar og var þá eingöngu hægt að kjósa í Smáralindinni. Var þetta sorglegt í því ljósi að undanfarin ár hefur verið aukning í kosningaþátttöku utan kjörfundar og því full ástæða til að koma til móts við þann áhuga. Spyr ég mig hvort sýslumaðurinn átti sig á mikilvægi þess að auðvelda öllum kjósendum aðgengi að atkvæðagreiðslunni?“ skrifar Dóra Björt.

Þá segir Dóra Björt að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hafi ekki haft „áhuga á ítrekun þessara skilaboða einhverra hluta vegna.“

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV