Deilihagkerfið mun ráða ríkjum í nýju bíllausu hverfi

Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV
Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að nýju hverfi í Gufunesi í Reykjavík. Þar verða 137 íbúðir sem eru hugsaðar fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og verður um margt einstakt. Íbúðirnar eru hannaðar með umhverfismarkmið í huga og á deilihagkerfi að ríkja að miklu leyti innan hverfisins, sem einnig verður bíllaust.

Hverfið gengur undir nafninu Þorpið og Runólfur Ágústsson er verkefnisstjóri þess. Hann segir að þarna verði í boði ný tegund af húsnæði með ódýrum íbúðum og samfélagi þar sem fólk getur lifað í sátt við nágrannana og umhverfið. „Þannig verður aðgengi hér að deilibílum, hverfið verður í sjálfu sér bíllaust, bílarnir verða fyrir utan hverfið. Öllum sem vilja gefst kostur á að fá kálgarð hérna handan götunnar með íbúðinni. Við erum svona að hugsa þetta á þessum grænu nótum.”

Undirbúningur hefur staðið í þrjú ár og Runólfur hann hafi verið fólginn í ítarlegri greiningu og rýni þar sem afstaða ungs fólks til umhverfis- og samfélagsmála var könnuð. Niðurstaðan bendi til þess að ungt fólk hafi lítinn áhuga á að binda sig fjárhagslega í áratugi með íbúðarkaupum. „Við erum með tvenn markmið, annars vegar að bjóða upp á ódýrar íbúðir og hins vegar að bjóða upp á gott samfélag.”

Áætlað er að minnstu íbúðirnar, og jafnframt þær ódýrustu, kosti innan við 20 milljónir króna. Runólfur segir að þeim fylgi mikil sameign svo sem sameiginlegt torg, vinnuaðstaða, þvottahús, kaffihús og fleira. Hann segir jafnframt að hverfið verði vel tengt með hjóla- og göngustígum, hefðbundnum almenningssamgöngum og einnig sé verið að skoða möguleikann á því að sérstakur vatnastrætó sigli með íbúa á milli hverfa. Þá hafa íbúar aðgang að deilibílum. 

Þessi hluti Gufuness er óbyggður og Runólfur bendir á að svæðið hafi tekið miklum breytingum að undanförnu. Skapandi starfsemi er nú í iðnaðarhúsnæði sem áður var notað undir sorpiðnað. „Þetta er, af borgarinnar hálfu, skilgreint það sem þeir kalla fríríki frumkvöðla,” segir hann um staðsetninguna. 

Framkvæmdirnar eiga að ganga nokkuð hratt og fyrstu íbúðirnar að vera afhentar fullbúnar eftir 12 mánuði. Annar og þriðji áfangi hefjast nokkrum mánuðum síðar. „Við erum að áætla það að eftir tvö ár verði þetta þorp fullbúið með plöntum, bekkjum og öllu,” segir Runólfur. Aðstandendur verkefnisins séu fullir bjartsýni enda áhuginn mikill og meira en 400 manns hafi staðfest umsóknir um íbúð í þorpinu. „Við finnum fyrir miklum áhuga og höfum ekki áhyggjur af sölunni.”

gudmundurp's picture
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
vefritstjórn
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi