
Bankarnir töpuðu 7,2 milljörðum fyrstu 3 mánuði ársins
Bæði Arion banki og Íslandsbanki skiluðu sínum uppgjörum í gær. Arion banki tapaði 2,2 milljörðum og Íslandsbanki 1,4. milljörðum.
Hagnaður fyrrnefnda bankans var um einn milljarður á sama tíma í fyrra og hagnaður síðarnefnda bankans 2,6 milljarðar. Rekstur bankanna hefur því farið úr 10,4 milljarða hagnaði í 7,2 milljarða tap sem er viðsnúningur upp á 17,6 milljarða.
Í tilkynningu frá Landsbankanum er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að uppgjör bankans endurspegli greinilega áhrifin sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á efnahagslífið. „ Til þessa hafa tæplega 1.250 einstaklingar og fjölskyldur frestað greiðslum á íbúðalánum um sex mánuði. Þá hafa yfir 600 fyrirtæki sótt um að fresta afborgunum.“ Bankinn tekur fram að hann sé í góðri stöðu til að takast á við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Samþykkt var á aðalfundi bankans að greiða ekki arð vegna ársins 2019 og er það gert í samræmi við tilmæli Seðlabanka Íslands. Landsbankinn hefur greitt út 142 milljarða í arð frá árinu 2013 en hann er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.