Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ari fer með gamanmál í beinu streymi ásamt Eddie Izzard

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett

Ari fer með gamanmál í beinu streymi ásamt Eddie Izzard

07.05.2020 - 10:20

Höfundar

Ari Eldjárn tekur þátt í uppistandskvöldi þar sem grínistar frá öllum heimshornum fara með gamanmál til styrktar Læknum án landamæra.

Tíu grínistar frá átta löndum koma fram í beinu vefstreymi fimmtudaginn 14. maí. Ari Eldjárn er þar efstur á blaði ásamt Eddie Izzard, einum best metna uppistandara heims. 

Aðrir grínistar sem koma fram eru Anuvab Pal frá Indlandi, Brodi Snook frá Ástralíu, Conrad Koch frá Suður-Afríku, Dave Hill frá Bandaríkjunum, Francesco De Carlo frá Ítalíu, Igor Meerson frá Rússlandi, Luca Capani frá Ítalíu, Sam Morrison frá Bandaríkjunum. Kynnir kvöldsins er Schalk Bezuidenhout frá Suður-Afríku.

Uppistandið er til styrktar alþjóðlegu hjálparsamtökunum Læknum án landamæra og tekið verður á móti frjálsum framlögum. Glensið verður sent út í beinni á Youtube-rásinni Komedia Live! fimmtudaginn 14. maí klukkan 19 að íslenskum tíma.


Fréttin hefur verið uppfærð: Hér stóð að uppistandið færi fram 7. maí. Hið rétta er að það fer fram 14. maí. Þetta hefur verið leiðrétt.