Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhyggjuefni ef fjárveitingarnar duga ekki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það áhyggjuefni telji sveitarfélög sig ekki geta séð um rekstur hjúkrunarheimila. Sveitarfélög hafa þurft að borga hundruð milljóna með rekstri hjúkrunarheimila þar sem fjárveitingar duga ekki.

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra á ríkið að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila en í flestum tilvikum hefur sjálfur reksturinn verið falinn sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum. Um 1/3 af hjúkrunarheimilum landsins eru að öllu eða einhverju leiti rekin af sveitarfélögum, með samningi við sjúkratryggingar Íslands. 

Sveitarfélög hafa ítrekað kvartað undan þungum rekstri heimilanna og hafa sum borgað hundruð milljóna með rekstrinum þar sem fjárveitingar duga ekki.

Mörg sveitarfélög skoða stöðu sína

Akureyrarbær hefur tilkynnt heilbrigðisráðuneytinu að hann ætli ekki framlengja rekstrarsamning vegna öldrunarheimilanna við Sjúkratryggingar Íslands um áramót. Þá hefur Vestmannaeyjarbær óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra vegna rekstursins.

Mosfellsbær sagði upp sínum samningi árið 2017 og Seltjarnarnes neitaði að taka við rekstri nýs hjúkrunarheimilis þar í fyrra. Garðabær höfðaði mál á hendur ríkinu árið 2016 og gerði fjárkröfu sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar. Ríkið var sýknað af kröfunum en málið er á dagskrá hæstaréttar í júní.    

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa fengið ályktanir vegna erfiðs reksturs frá fleiri sveitarfélögum og segja þær raddir verða æ háværari.

Áhyggjuefni ef sveitarfélög geti ekki séð um rekstur heimilanna

Í skriflegu svari frá Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, til fréttastofu segir hún það sannarlega áhyggjuefni telji sveitarfélög sig ekki geta séð um rekstur hjúkrunarheimila fyrir fólk í heimabyggð. Slík staða veki upp margvíslegar spurningar.

Þær snúist að hluta til um rekstrargrundvöll heimilanna en ekki síður um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og um ábyrgð sveitarfélaga á þjónustu við íbúa í heimabyggð. Svandís segir hjúkrunarheimili ekki sjúkrahús heldur heimili. Sveitarfélög beri ábyrgð á búsetu íbúa sinna og skuli tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og jafnframt skipuleggja félagslega þjónustu. Ábyrgð ríkisins á heilbrigðisþjónustu sé alveg skýr.

Skilin þarna á milli séu hins vegar óljós, viðfangsefnið sé stórt og það þurfi að finna góða lausn til framtíðar. Hún hefur átt í viðræðum við Samband íslanskra sveitarfélaga. Þær viðræður haldi áfram og leiði vonandi að niðurstöðu

Ætla að kostnaðargreina rekstur heimilanna

Teljið þið að öldrunarheimilin séu vel rekin? „Í síðustu samningum rekstraraðila hjúkrunarheimila og Sjúkratrygginga Íslands sem undirritaður var um áramótin er bókun um að ráðist verði í kostnaðargreiningu á rekstri heimilanna. Sú greining mun án efa leiða margt í ljós sem getur nýst í viðræðum um reksturinn til framtíðar, hvað er vel gert og hvað má betur fara“ segir Svandís.