Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

58% fleiri umsóknir til Hjálparstarfs kirkjunnar

07.05.2020 - 10:51
Mynd með færslu
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins.  Mynd: RÚV
Umsóknum um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar fjölgaði um 58,4 prósent í mars og apríl miðað við í sömu mánuðum í fyrra. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins, segir að óvissan meðal skjólstæðinga sé mikil.

Síðustu tvo mánuði fengu 564 einstaklingar og fjölskyldur sem búa við fátækt aðstoð hjá Hjálparstofnun kirkjunnar. Í mars og apríl í fyrra fengu 356 aðstoð. Fyrst og fremst fólst aðstoðin í því að fólkið fékk inneignarkort fyrir matvöru, að því er segir í fréttatilkynningu frá Hjálparstarfi kirkjunnar. 

„Við finnum að fólk er mjög kvíðið og viðtölin við hvern og einn sem hingað leitar eru því lengri og við fylgjum fólkinu betur eftir en áður. Það er nauðsynlegt að hlusta á fólk í þessu óvissuástandi og veita því sálrænan stuðning,“ er haft eftir Vilborgu í tilkynningunni.

Beiðnum um aðstoð við lyfjakaup fjölgaði

Fólk fær einnig aðstoð við lyfjakaup í neyðartilfellum og fjölgði þannig beiðnum einnig. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa aðlagað þjónustuna eftir því sem aðstæður hafa breyst vegna heimsfaraldursins og nú er fólki sem er í viðkvæmri stöðu gagnvart veirunni boðið að hafa samband símleiðis eða með því að senda tölvupóst.

Vilborg segir að þau í hjálparstarfinu sjái þá erfiðu stöðu sem útlendingar, sem ekki tali íslensku, séu í. „Þrátt fyrir vandaða upplýsingagjöf stjórnvalda á ýmsum tungumálum þá virðast þær ekki ná til þeirra útlendinga sem til okkar leita. Þeir eru því í mikilli óvissu um það sem er að gerast í samfélaginu núna. Við þurfum sem samfélag að finna leið til þess að bæta úr þessu,“ segir Vilborg.  

Telja að staðan eigi eftir að versna

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, býst við því að umsóknum um efnislega aðstoð eigi eftir fjölga verulega með haustinu þegar skólarnir fara aftur af stað og uppsagnarfrestur þeirra sem nú hafa misst vinnuna er liðinn. Haft er eftir honum í tilkynningunni að þau séu að undirbúa sig fyrir aukinn fjölda umsókna um efnislega aðstoð. Nú sé lögð áhersla á að safna til að geta sinnt starfinu á Íslandi og í Afrínu þar sem þörfin verði síst minni á næstu mánuðum.