30 látnir í átökum þjóðflokka í Súdan

07.05.2020 - 04:18
epa04021150 South Sudan's soldiers stand guard in Mvolo County, Western Equatoria State, South Sudan, 14 January 2014. According to local media sources, 13 men turned themselves to authorities in Mvolo claiming they are dissident fighters from the
 Mynd: EPA
Þrjátíu féllu í átökum tveggja þjóðflokka í Suður-Darfur héraði í Súdan. Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu segir að níu hafi fallið í átökum í fyrrinótt, og 21 í gærmorgun þegar átök hófust að nýju. AFP fréttastofan hefur eftir íbúa á svæðinu að deilur um búfjárþjófnað hafi orðið kveikjan að átökunum.

Deilurnar stóðu á milli al-Raziqat, sem eru Arabar, og afríska þjóðflokksins al-Falata. Átök hafa orðið á milli arabískra og afrískra þjóðflokka í Darfur allt frá árinu 2003, þegar uppreisnarhreyfingar minnihlutahópa gripu til vopna gegn ríkisstjórn Omars al-Bashirs, þáverandi forseta. Stjórn hans var að mestu skipuð Aröbum, og sökuðu afrískir þjóðflokkar hana um að jaðarsetja Darfur bæði efnahagslega og pólitískt. 

Bashir var bolað frá völdum í apríl í fyrra eftir margra mánaða mótmæli. Núverandi stjórn vill snúa blaðinu við frá ógnarstjórn hans síðustu þrjá áratugi. Meðal aðgerða nýju stjórnarninnar er að reyna að binda enda á þjóðflokkadeilur sem hafa blossað upp ítrekað allt frá því Súdan varð sjálfstætt árið 1956. Síðan þá hafa uppreisnarhreyfingar látið minna fyrir sér fara, en þjóðflokkar halda áfram að deila sín á milli.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi