Vilja dreifa gori og blóði til uppgræðslu við Húsavík

06.05.2020 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Norðlenska hefur óskað eftir því að dreifa úrgangi frá sláturtíð á landsvæði hjá Norðurþingi. Um 500 tonn af blóði og gori duga til uppgræðslu á 15 hektara lands. Skipulagsráð leggst ekki gegn hugmyndinni og leitar umsagnar hjá Matvælastofnun.

Norðlenska hefur óskað eftir samstarfi við Sveitarfélagið Norðurþing um að nýta gor og blóð sem fellur til í sláturtíð hjá fyrirtækinu til uppgræðslu á landi í nágrenni Húsavíkur. Þetta kemur fram í fundargerð Skipulags- og framkvæmdarráðs Norðurþings. 

Landsvæðið má ekki nýta til beitar í 20 ár

Síðustu ár hefur gori og blóði frá Norðlenska verið dreift á Hólasandi í samstarfi við Landgræðsluna. Nú er því verkefni að ljúka og því vildi Norðlenska kanna möguleikann á að dreifa úrganginum innan fyrirhugaðs skógræktarlands á Ærvíkurhöfða.

Um 500 tonn slíkst úrgangs falla til við hverja sláturtíð sem getur nýst til uppgræðslu á um 15 hekturum lands. Landsvæðið þarf að vera afgirt og ekki er leyfilegt að nýta það til beitar í 20 ár eftir dreifingu.

Leggjast ekki gegn hugmyndinni

Í fundargerðinni segir enn fremur að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands leggist ekki gegn hugmyndinni en minnir á að framkvæmdin sé háð samþykki Matvælastofnunar. Ráðið er sammála því að taka málið til skoðunar og hyggst senda erindi til MAST. 

 

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður stóð að 500 lítrar myndu falla til við hverja sláturtíð.