Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Undan hvaða steini skreið Miðflokkurinn?“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, gerði alvarlegar athugasemdir við málflutning þingmanna Miðflokksins um loftslagsmál og borgarlínuna. Málin voru rædd á Alþingi í gær. Hann sagðist í framhaldinu hafa velt því fyrir sér „undan hvaða steini Miðflokkurinn skreið.“

Kolbeinn sagði mjög upplýsandi að heyra þessi sjónarmið Miðflokksins því á meðan heimurinn reyndi að taka höndum saman í baráttunni við loftslagsvána vissi Miðflokkurinn betur.

Og á meðan öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkið tækju höndum saman um verkefni sem hefði með loftslagsmál að gera þá vissi Miðflokkurinn betur. „Gögn, líkön og staðreyndir skipta Miðflokkinn engu máli.“

Kolbeinn hvatti fólk til að taka orð sín ekki fyrir þessu heldur skoða umræðuna á vef Alþingis og  „kynna sér sjálft þá forneskju sem þar kemur fram.“ 

Þegar Kolbeinn sleppti síðasta orðinu mátti heyra kallað úr sal: „Hvaða þvæla er þetta?“

Tveir þingmenn Miðflokksins gerðu ummæli Kolbeins að umtalsefni í ræðum sínum um störf þingsins. Þorsteinn Sæmundsson þakkaði Kolbeini fyrir að vekja athygli á málflutningi Miðflokksins og hvatningu hans til að kynna sér innihald þeirrar umræðu.  Birgir Þórarinsson sagðist ekki ætla að bregðast við dæmalausri ræðu þingmannsins og tilburði hans í ræðustóli.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV