Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tjörnin í hættu vegna lítils vatnsrennslis

06.05.2020 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vatnsrennsli í Tjörnina í Reykjavík er orðið mjög lítið vegna mikilla byggingaframkvæmda í Vatnsmýrinni. Ef vatn hættir að renna í Tjörnina hefur það mikil áhrif á lífríki hennar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fuglalíf við Tjörnina. Finnur Ingimarsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, segir að vatnasvið hennar sé ákaflega lítið. Vatn sem áður rann í hana sé veitt út í fráveitukerfi.

Byggingaframkvæmdir hafa áhrif á vatnsbúskap 

Skýrsla umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um fuglalíf á Tjörninni er nýútkomin. Þar fjalla fuglafræðingarnir Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson um ástand fuglalífs hennar sem hefur verið að hnigna í 15 ár.  Benda þeir meðal annars á að vatnsbúskapur Tjarnarinnar gæti verið í hættu vegna mikilla framkvæmda víða í Vatnsmýri eða í jaðri hennar. Framkvæmdir eru við Hlíðarenda og svo standi til að byggja við sunnanverðan Reykjavíkurflugvöll. „Þessar framkvæmdir gætu haft áhrif á vatnsbúskapinn og þarf að vakta hann gjörla, annars er hætta á að vatn hætti að renna til Tjarnarinnar og það myndi verða endanlegur dauðadómur yfir lífríkinu og fuglalífinu,“ stendur í skýrslunni. 

Vatnasvið Tjarnarinnar ákaflega lítið

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur gert umfangsmiklar rannsóknir á lífríki Tjarnarinnar. Niðurstöðurnar fyrir þremur árum sýndu að Tjörnin hafði tekið verulega við sér eftir mörg mjög erfið ár. Fyrir um áratug var ástandið verulega slæmt. Tjörnin var mjög menguð og í henni fundust saurgerlar. Árið 2017 var hún farin að sýna batamerki.

Finnur tekur þó undir með skýrsluhöfundum. Hann segir að vatnasvið Tjarnarinnar sé ákaflega lítið. Mikið af þeirri úrkomu sem er í vatnasviði hennar komi frá ofanvatnskerfum gatna og húsa. Stór hluti þess sé frá flugvallarsvæðinu og byggingunum á Valsreitnum og Öskjuhlíðinni. 

„Þegar farið var að skoða þetta aðeins nánar þá reyndist dálítið stór hluti af því vatni vera yfirfall fra Orkuveitunni og í tengslum við tankana á Öskjuhlíðinni. Orkuveitan var með hugmyndir um loka fyrir þetta yfirfall en ég held að borgin hafi beðið um að gera það ekki.“

Er þá lítið vatnsrennsli í Tjörnina? „Það er ákaflega lítið. Það er náttúrlega breytilegt eftir úrkomu en maður sér það bara á því sem rennur undir Hringbrautina. Það heildarrennsli sem er um kerfið kemur þar niður.“   

Byggingaframkvæmdirnar hafa minnkað svæðið verulega. Ef sú úrkoma sem fellur á framkvæmdasvæðið er líka leidd í burtu minnkar vatnsrennslið enn meira. Allar byggingar sem eru í Vatnsmýrinni séu þeim annmörkum háð að ofanvatn er leitt í burtu í fráveitukerfum. Því meira sem er byggt þarna því minna vatnsrennsli úr mýrinni og í Tjörnina.  

Viðstöðutími vatnsins lengist

Finnur segir að þegar vatnsrennsli verður svona lítið hefur það áhrif á lífríkið í vatninu. Svokallaður viðstöðutími vatnsins lengist, það verður staðnara og þá verður meiri hætta á súrefnisskorti í lífríkinu. Þá þurfi menn að fara að glíma við súrefnisþurrð sem getur skaðað smádýralífríki og upp eftir fæðukeðjunni.  

Hér áður fyrr rann mun meira vatn úr mýrinni út í Tjörnina og lækurinn sem Lækjargata heitir eftir rann frá Tjörninni og út í sjó. Þá gætti flóðs og fjöru enda voru í henni og smádýr eins og marfló. Ólafur K Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson benda á í skýrslu sinni að marflóin sé horfin og mýið nær líka. 

Veita þarf vatni út í mýri og út í Tjörn

Finnur segir að ýmsar hugmyndir hafi komið upp um hvernig bæta megi vatnsbúskap Tjarnarinnar. „Eins og að láta vatn renna inn kerfið til dæmis tappa af kaldavatnskerfum. Svo er líka spurning hvort hægt sé að útbúa frárennsli sérstaklega af húsbyggingum í Vatnsmýrinni þannig að vatninu sé veitt út í mýrina en ekki í fráveitukerfið. Sérstaklega affalls vatn frá þakrennum þannig að úrkoma eða regn sem fellur á þök eigi leið út í kerfið en ekki í burtu.“

Hvað gerist ef ekkert er gert - deyr tjörnin? „Ef vatnsrennsli minnkar mikið frá því nú er þá er hætta á því að þetta verði staðið og vatnið fúlni. Þá förum við að eiga við þessar súrefnisþurrðaraðstæður í vatninu sem getur komið niður á lífríkinu sem þarf súrefni til að anda.“

Finnur segir að nokkuð mikil gróska sé smádýralífríki í Tjörninni og tilvist þörunga og plantna þar verið heldur á uppleið allra síðustu ár. Það sé jákvætt. 

Ef rennslið heldur áfram að minnka getur það gengið til baka? „Það myndi alla vega viðhalda því ástandi sem er núna. Hún er í einhvers konar þróun upp á við, alla vega hvað varðar gróðurfar og smádýrlíf, en ég myndi vilja sjá hvernig það þróaðist í náinni framtíð.“