Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur PFS þurfa að endurskoða reglur eftir kvörtun Mílu

Mynd með færslu
 Mynd: Gagnaveita Reykjavíkur
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála (ÚFP) hefur fallist á kröfu Mílu, dótturfélags Símans, og breytt ákvörðunarorðum Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) að hluta. Stofnunin hafði úrskurðað að Míla hafi ekki farið að reglum þegar fyrirtækið lagði fjarskiptalagnir í húsnæði í Hafnarfirði án þess að gefa öðrum kost á að samnýta framkvæmdina. 

Innan fasteignar eiga að liggja tveir ljósleiðaraþræðir. Það fyrirtæki sem leggur ljósleiðara í hús á að ganga þannig frá að annað fyrirtæki geti tengt ljósleiðarainntak við annan þráð. Þar með er óþarft að aftengja eitt inntak fyrir annað og auðveldara fyrir neytendur að velja hvaðan þeir kaupa þjónustuna. 

Gagnaveitan sakaði Mílu um að hafa aftengt og fjarlægt ljósleiðarainntak, en Míla sagði vandann felast í því að frágangur Gagnaveitunnar hafi verið lélegur og þræðir hennar of stuttir eða of fáir. Þess vegna hafi Míla þurft að fara í inntak Gagnaveitunnar og veiða þaðan annan þráð. PFS var ósammála Mílu um að aukaþráður hafi verið of stuttur.

Míla aftengdi þráðinn en endurskoða þarf reglur

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellst hins vegar á kröfu Mílu og breytt ákvörðunarorðum PFS til samræmis við það og fjarlægt tilvísun í umrædda húseign í upptalningu um þau tilvik sem Míla braut gegn reglum um innanhússfjarskiptalagnir.

Óumdeilt væri að Míla ehf. hafi aftengt tengdan þráð þrátt fyrir laus aukaþráður hafi verið til staðar í þeirri húseign sem kærumálið laut að. Hins vegar hafi ekki legið fyrir hversu stuttur eða langur lausi aukaþráðurinn hafi verið og því hafi ekki verið tilefni til að úrskurða að Míla hafi brotið reglurnar.

ÚFP segir það tilefni fyrir PFS að taka reglur um innanhúsfjarskiptalagnir til endurskoðunar, því ekki sé skýrt hvenær laus aukaþráður sé ónothæfur. PFS tekur undir það og hyggst efna til samráðs um þessa reglubreytingu. 

Míla og Gagnaveitan hafa lengi deilt á opinberum vettvangi vegna ljósleiðaravæðingar. Míla boðaði kvörtun til Neytendastofu og Gagnaveitan lagði fram kröfu á hendur Símanum í fyrra yfir yfir milljarð.