Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skilningur verkalýðshreyfingarinnar mætti vera meiri

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Halldór Benjamín Þorbergsson tekur undir undir orð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í fréttum RÚV í gær. Bjarni sagði að forsendur lífskjarasamningsins stæðu tæpt. Allt annað svigrúm hafi verið til gerðar kjarasamninga þá en nú. 

Halldór segir gjörbreyttar forsendur í efnahagslífinu nú, hvort sem litið sé til fyrirtækja eða hins opinbera, og 55 þúsund manns þiggi atvinnuleysisbætur að hluta til eða öllu leyti.  Hann segist taka undir orð fjármálaráðherra, sem hann skildi þannig að einkennilegt væri að enn væri verið að gera kjarasamninga sem byggðu á ársgömlum forsendum.

Halldór vill ekki svara því hvort samningum verði sagt upp í haust vegna forsendubrests, líkt og ákvæði leyfa. „Ég mun fyrst ræða það við viðsemjendur hringinn í kringum landið,“ segir hann. „Ég vænti þess, því miður að sumarið verði þungt fyrir marga og vonast til þess að verkalýðshreyfingin og samtök atvinnulífsins nái skynsamlegri lausn sem fyrst og fremst verður fólgin í því að standa vörð um störf í landinu enda er það ólíðandi öllum að það séu nálægt 60 þúsund manns á atvinnuleysisskrá og getur ekki gengið upp til lengdar,“ segir hann.

Finnst þér vera skilningur á þessu ástandi hjá verkalýðshreyfingunni? „Skilningurinn mætti vera meiri, ég held að skilningurinn sé mjög ríkur meðal allra landsmanna og ég vænti þess að skilningurinn muni aukast eftir því sem líður á sumarið,“ segir Halldór.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir