Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að neytendur eigi inni 1,5 til 2,5 milljarða

Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir / RÚV
Formaður Neytendasamtakanna segir að íslenskir neytendur eigi inni á bilinu 1,5 til 2,5 milljarða hjá ferðaskrifstofum, í formi ferða sem búið er að greiða, en verða ekki farnar vegna kórónuveirufaraldursins. Hann vill að ferðskrifstofum verði gert kleift að taka lán til þess að endurgreiða féð.

Í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er lagt til að komið verði til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða pakkaferð, sem hefur verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins, með inneignarnótu. Inneignarnótuna verður hægt að leysa út að tólf mánuðum liðnum. Neytendasamtökin hafa gagnrýnt þetta frumvarp harðlega.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, var gestur Kastljóss í kvöld. Þar sagði hann meðal annars að með frumvarpinu sé verið að færa lausafjárvanda ferðaskrifstofa yfir á herðar neytenda. Þá sé frumvarpið andstætt stjórnarskrá.

„Það er annað sem er ámælisvert við þetta frumvarp, að það er ekki gerð tilraun til þess að reikna út hvað þetta eru háar fjárhæðir. Með góðu giski telst okkur til að þetta geti verið einhvers staðar á bilinu 1,5 til 2,5 milljarðar. Það byggjum við á dæmum frá Danmörku og samtölum sem við höfum átt við stjórnvöld og ferðaskrifstofur,“ segir Breki.

Ýmsar leiðir

Breki segir að dæmi séu um ferðaskrifstofur sem hafi endurgreitt viðskiptavinum upp í topp, en aðrar sendi viðskiptavinum sínum bréf þar sem fram kemur að á meðan frumvarpið er til meðferðar á Alþingi, muni þær ekki endurgreiða.

Breki segir að Neytendasamtökin hafi lagt til margar leiðir til að leysa þennan vanda.

„Sú sem er kannski heillavænlegust að okkar mati er að í staðinn fyrir að neytendur séu gerðir að lánveitendum til þrautavara fyrir þessi fyrirtæki, þá verði þeim gert kleift að taka lán til þess að geta greitt, og staðið við sínar skuldbindingar gagnvart neytendum. Þetta er svipuð leið og Danir hafa farið, þeir settu einn og hálfan milljarð danskra króna í sjóð sem ferðaskrifstofur geta sótt í með veði í tryggingunum sínum. Og ferðaskrifstofurnar hafa síðan 10 ár til þess að greiða það lán upp.“

Horfa má á viðtalið við Breka í spilaranum hér að ofan.