
Sala Íslandsbanka sett á ís
Bankasýslan lagði til í september að fjórðungur af hluti ríkisins í Íslandsbanka verði seldur í útboði eða allt að hundrað prósenta hlutur með uppboðsleið og í lok janúar sagðist Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vonast til þess að hægt verði að hefja söluferlið á þessu kjörtímabili. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin vilji leita leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Íslenska ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti og rúmlega 98 prósenta hlut í Landsbankanum.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu hefur áformum um sölu Íslandsbanka verið frestað. Sala banka sé ekki raunhæf í augnablikinu vegna efnahagslegra aðstæðna hér og á alþjóðavettvangi.
Stefnt hafði verið að því að nýta hluta söluandvirðis Íslandsbanka til að fjármagna stóran hluta af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem er fjárfesting upp á 120 milljarða á næstu 15 árum, líkt og fjármálaráðherraráðherra kom inn á á Alþingi í gær, þegar hann mælti fyrir frumvarpi um stofnun opinbers hlutafélags um Borgarlínu og samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.
Helmingur þeirrar upphæðar átti að koma frá ríki og sveitarfélögum en hinn helminginn átti að fjármagna með notendagjöldum - eða eins og fjármálaráðherra hefur talað fyrir - með sölu Íslandsbanka.