Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Prófessorinn sem féll á eigin prófi

06.05.2020 - 13:19
epa08403142 Members of the public pass Tower Bridge, Central London, Britain, 05 May, 2020. Britons are now in their sixth week of lockdown due to the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bresku götublöðin hafa farið mikinn vegna máls Neils Ferguson, ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Ferguson neyddist til að segja af sér þegar í ljós kom að ástkona hans, sem er gift öðrum manni, hafði heimsótt hann tvívegis í trássi við fyrirmæli yfirvalda . Ástkonan segist vera í opnu sambandi og hafi alltaf litið á heimili sitt og prófessorsins sem eitt. Prófessorinn er sjálfur giftur maður en hann og eiginkonan búa ekki saman.

Breska blaðið Telegraph greindi fyrst frá málinu í gær.

Kallaður „Professor Lockdown“

Bresk yfirvöld gripu til harðra aðgerða til að reyna hefta útbreiðslu veirunnar. Bretum var gert að halda sig heima,  vernda heilbrigðiskerfið og bjarga þannig mannslífum. Höfundur stefnunnar er Neil Ferguson, prófessor við Imperial College, stundum kallaður „Professor Lockdown“ . Útreikningar hans á þróun faraldursins hafa meðal annars verið notaðir á Íslandi og í umfjöllun Telegraph kemur fram að teymi Ferguson spáði að meira en hálf milljón myndi deyja í faraldrinum á Bretlandi ef ekkert yrði gert.

Hvatti fólk til að fylgja fyrirmælum 

Ferguson greindist sjálfur með kórónuveiruna um miðjan mars en eftir að hafa jafnað sig var hann duglegur á Twitter-síðu sinni að hvetja fólk til að fylgja fyrirmælum stjórnvalda; halda sig heima, vernda heilbrigðiskerfið og bjarga þannig mannslífum. Hann gerði það einnig í sjónvarpsviðtölum og raunar hvar sem hann kom fram. Þetta yrði mörgum erfitt en fólk yrði að halda þetta út.

Þessar hörðu aðgerðir vöktu margar spurningar um hvernig fólk mætti haga sér. Það hefur nú verið rifjað upp í tengslum við mál Ferguson að spurt var sérstaklega um það á stöðufundi breskra stjórnvalda hvort pör í fjarbúð mættu hittast. „Ef fólk heldur tvö heimili þá á það að halda sig á sínu heimili. Þetta er tækifæri til að láta reyna á sambandið. Pör verða bara að byrja að búa saman ef þau vilja hitta hvort annað,“ sagði Jenny Harries, landlæknir Breta, á blaðamannafundi þann 24. mars.

Viðurkennir dómgreindarbrest

Það hefði þó verið flókið í máli Ferguson, að hefja sambúð. Því ástkonan, Antonia Staats, er gift öðrum manni. Í umfjöllun Telegraph er haft eftir henni að hún sé í opnu sambandi og hún hafi alltaf litið á heimili Ferguson og sitt sem eitt.  Þau hittust á stefnumótasíðunni OkCupid fyrir meira en ári síðan og eiginmaður hennar og Ferguson hafa hist. Þeir deila áhuga á tölfræði.

Bresku götublöðin hafa farið mikinn í umfjöllun sinni um málið og saka prófessorinn um hræsni.  Sjálfur hefur hann viðurkennt að hafa gerst sekur um dómgreindarbrest þótt ástkonan vísi því á bug. Þau hafi engar reglur brotið.  Í bresku blöðunum í morgun kemur fram að lögreglan ætli ekki að aðhafast vegna málsins.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra, sagði í viðtali við Sky að Ferguson hefði tekið rétta ákvörðun.  Ómögulegt væri fyrir hann að halda áfram sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Reglurnar sem hefðu verið settar væru fyrir alla og þetta væri dauðans alvara.

Ferguson er ekki fyrsti ráðgjafinn á Bretlandi sem hefur neyðst til að segja af sér eftir að hafa ekki farið að eigin fyrirmælum. Catherine Calderwood, landlæknir Skotlands, hætti eftir að hún fór upp í sumarbústað þrátt fyrir að hafa beðið fólk um að halda sig heima.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV