Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir stoðtækjaframleiðandann Össur harðlega fyrir að hafa „ákveðið að nýta sér hlutabótaleiðina örskömmu eftir að fyrirtækið greiddi eigendum sínum 1,2 milljarða króna í arð.“ Miðstjórnin segir að slíkt athæfi sé ósiðlegt og ætti að vera ólöglegt.

Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnarinnar sem birt var í dag.

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands áréttar að opinber stuðningur til fyrirtækja vegna áhrifa COVID-19 á ekki að vera til þess gerður að fyrirtæki sem ekki þurfa á honum að halda vaði í sameiginlega sjóði samfélagsins að vild. Fram hefur komið að Össur ehf. hafi ákveðið að nýta sér hlutabótaleiðina örskömmu eftir að fyrirtækið greiddi eigendum sínum 1,2 milljarða króna í arð. Slíkt athæfi er ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt,“ segir í ályktuninni.

„Mál að linni“

Þar segir ennfremur að ASÍ hafi ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld setji skýr skilyrði við opinberum stuðningi. Meðal skilyrða sem ASÍ hafi kallað eftir sé að fyrirtæki hafi nýtt sér eigin bjargir, þau undirgangist skilyrði um að greiða ekki út arð til tveggja ára eftir að þau njóta fyrirgreiðslu og að fyrirtækin eða eigendur þeirra séu ekki skráð í skattaskjólum.

„Stjórnvöld hafa brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja hagsmuni almennings og komandi kynslóða. Nú er mál að linni,“ segir í ályktuninni.

Össur minnkaði starfshlutfall 165 starfsmanna á Íslandi niður í 50 prósent starf í apríl og bauð þeim að nýta hlutastarfaleið stjórnvalda.