Stafræna tónleikaröðin Látum okkur streyma hefur vakið mikla lukku. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í lok mars en þá steig Ásgeir Trausti á svið. Síðan þá hafa sveitir og listafólk á borð við Hjálma, GDRN, Moses Hightower og fleiri komið fram. Í kvöld er komið að Mammút en sveitin hefur verið á meðal vinsælustu hljómsveita landsins allt frá því að hún sigraði Músíktilraunir árið 2004. Síðan þá hefut hljómsveitin gefið út fjórar breiðskífur og hún hefur einnig verið afar sigursæl á Íslenslu tónlistarverðlaununum.
Nýjasta breiðskífa Mammút kom út árið 2017 og heitir Kinder Versions og er sú fyrsta sem er eingöngu sungin á ensku. Síðustu misseri hefur hljómsveitin ferðast vítt og breitt um heiminn og komið fram á tónleikum við góðan orðstír.
Tónleikar Mammút á Látum okkur streyma hefjast kl. 20. Þeir verða í beinni útsendingu á Rás 2, RÚV.is, RÚV2 og á Facebook-síðu Hljómahallarinnar.