Hugmyndin kviknaði út frá umhverfismengun Despacito

Mynd með færslu
 Mynd: Landvernd

Hugmyndin kviknaði út frá umhverfismengun Despacito

06.05.2020 - 13:12
Heimildarmyndin Mengað með miðlum er sigurvegari samkeppni Landverndar, Ungt umhverfisfréttafólk. Það eru þeir Axel Bjarkar, Hálfdán Helgi og Sölvi Bjartur sem gerðu myndina sem fjallar um mengun samfélagmiðla og streymisveita.

Alls bárust fjörtíu verkefni frá nemendum í tíu framhaldsskólum inn í keppnina en sambærileg samkeppni er rekin í 45 löndum víða um heiminn. Þetta er þó í fyrsta sinn sem íslenskum framhaldsskólanemum býðst þátttaka. Verðlaunin voru afhent í beinu streymi frá Norræna húsinu í dag  en dómnefndina skipuðu þau Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, Ragnhildur Þrastardóttir, blaðamaður, og Snærós Sindradóttir, fjölmiðlakona. Auk þeirra veittu Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta sérverðlaun.

Í fyrsta sæti var eins og áður segir heimildarmyndun Mengun með miðlum þar sem fjallað var um afkima umhverfisvandans og þá knýjandi kröfu að samfélagsmiðlar verði knúnir áfram af grænni orku. Axel Bjarkar, einn af höfundum myndarinnar, segir hugmyndina hafa fæðst þegar hann hlustaði á hlaðvarp þar sem talað var um hversu mikið lagið vinsæla, Despacito, mengaði umhverfið. Þeir hafi svo lagst í rannsóknarvinnu á netinu til að læra meira um það hvernig samfélagsmiðlar og streymisveitur menga.

Það sem kom þeim hvað helst á óvart í ferlinu var hversu fáir eru meðvitaðir um þessa mengun og hversu lítið er talað um þetta á alþjóðlegum skala. Axel segir þó ólíklegt að fólk muni ákveða að hætta að nýta sér samfélagsmiðla og streymisveitur á þessum tíma þar sem þetta er orðinn svo stór hluti af lífi margra, en eitthvað sé þó hægt að gera. 

„Fyrsta skrefið í að berjast gegn þessu er bara að fólk viti af þessu og það er það sem við erum að reynda að gera með myndinni okkar,“ bætir hann við.

Heimildarmyndina má sjá hér fyrir neðan. 

Í öðru sæti er ljósmyndin Congratulations, humanity! sem var að mati dómnefndar sterk gagnrýni á stórfyrirtæki og hvernig þau standa fyrir umhverfisskaðandi iðnaði um allan heim. Myndin var líka valin í Vali unga fólksins sem sögðu kökuna sýna hvernig hversdagsleg neysluhegðun kemur niður á okkur sjálfum. Það er Ásdís Rós, 22 ára nemi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, sem á heiðurinn að myndinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásdís Rós Þórisdóttir - Congratiulations, humanity
Congratulations, humanity!

Í þriðja sæti voru nemendur í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu sem stofnuðu instagramsíðuna hellisbúarnir sem skoðar bráðnun jökla sem ógnar ungum kynslóðum í dag og stefnir heimkynnum okkar og lífsháttum í hættu.  

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Hellisbúarnir (@hellisbuarnir) on

Tengdar fréttir

Keppa í fréttum um umhverfisvernd og hamfarahlýnun