Fjöldi farþega hjá Icelandair dróst saman um 99 prósent

06.05.2020 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Fjöldi farþega hjá Icelandair dróst saman um 99 prósent í apríl miðað við sama tímabil í fyrra. Nær engin eftirspurn er eftir flugi og ferðalögum um þessar mundir, segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. 1.700 farþegar flugu með vélum Icelandair í síðasta mánuði en til samanburðar voru þeir 318 þúsund í apríl í fyrra.

Fjöldi farþega í innnalandsflugi hjá Air Iceland Connect dróst einnig mikið saman í apríl eða um 91 prósent.  Áhrifin af völdum farsóttarinnar voru minni á fraktflutninga sem drógust saman um 37 prósent.

Í tilkynningu Icelandair segir að félagið hafi tekið að sér ýmis sérverkefni á því sviði. „Þar má nefna flutning á vörum frá Kína fyrir íslenska heilbrigðiskerfið í samstarfi DB Schenker og  og nú er flogið nær daglega með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Þýskalands fyrir heilbrigðisþjónustu í Evrópu.“ 

Tilkynnt var í dag að Icelandair hefði endurnýjað samning við íslenska ríkið um að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Nýi samningurinn gildir til 16. maí. Ekki liggur fyrir hvað tekur við eftir það. 

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Icelandair grátt. Félagið tapaði 31 milljarði á fyrstu þremur mánuðum ársins og eigið fé þess var komið niður í 27 milljarða í lok mars.  Ríkisstjórnin hefur sagt að félagið sé reiðubúið að veita ríkisábyrgð á lánalínu ef félaginu tekst að auka hlutafé sitt.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi