Endurnýjuðu samninginn og fljúga áfram til útlanda

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa endurnýjað samning við Icelandair, sem gengur út á að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Síðasti samningur rann út í gær, 5. maí, en Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að hann hafi verið endurnýjaður og gildi nú til 16. maí. Áfram verður því flogið frá Keflavík til Stokkhólms, Lundúna og Boston.

„Samningurinn við stjórnvöld hefur verið endurnýjaður til 16. maí nk. og miðar áfram við flug til London, Boston og Stokkhólms,“ segir Ásdís.

Ásdís segir að félagið uppfæri flugáætlun sína allt að viku fram í tímann. Þau flug sem nú liggi fyrir séu til Boston 7. og 9. maí, til Lundúna í dag og svo 8. og 10. maí og til Stokkhólms 9. maí.

Aðspurð segir Ásdís að það liggi ekki fyrir hvað taki við eftir 16. maí, þegar samningurinn rennur út.

Hvað innanlandsflugið hjá Air Iceland Connect varðar segir Ásdís að þar sé staðan metin frá degi til dags.

„Við hófum daglegt flug til Egilsstaða frá og með gærdeginum, 5. maí, gerum áfram ráð fyrir þremur til fjórum flugum í viku til Ísafjarðar og förum aftur upp í tvö flug á dag til Akureyrar,“ segir Ásdís.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi