Bandaríkjastjórn neitar þátttöku í samsæri

06.05.2020 - 04:53
epaselect epa08399171 Authorities patrol the coast where an alleged confrontation took place, in Macuto, La Guaira, Venezuela, 03 May 2020. The Government of Venezuela claimed on 03 May that they stopped a mercenary terrorist attack by a group from Colombia.  EPA-EFE/RAYNER PENA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Bandaríkjastjórn þvertekur fyrir að eiga nokkurn þátt í verkefni Bandaríkjamanna sem voru handteknir í Venesúela um helgina. Stjórnvöld í Venesúela greindu frá því í fyrradag að tveir Bandaríkjamenn séu í varðhaldi í Venesúela, grunaðir um aðild að samsæri um að koma Nicolas Maduro, forseta landsins, frá völdum og ráða hann af dögum. Bandaríkjastjórn sakar stjórn Maduros um áróður og rógburð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Mark Esper, varnarmálaráðherra, sögðu báðir við fjölmiðla vestanhafs í gær að Bandaríkjastjórn komi hvergi nálægt þessu. Talsmaður utanríkisráðuneytisins tók undir orð þeirra og bætti við ásökun um að Maduro væri að kokka upp leikrit með aðstoð kúbönsku leyniþjónustunnar. Allt væri það gert til þess að leiða huga landsmanna í Venesúela frá vandamálum innanlands. 

Maduro sakaði stjórnarandstöðuleiðtogann Juan Guaido og Ivan Duque, forseta Kólumbíu, um að eiga þátt í samsæri gegn sér. Guaido á að hafa fengið bandarískan fyrrverandi sérsveitarmann til að skipuleggja árás á Maduro. 

Bandaríska utanríkisráðuneytið segist vera að skoða ferðir þeirra Luke Denman og Airan Berry, sem yfirvöld í Venesúela segjast hafa í haldi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV