Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Arion banki tapaði 2,2 milljörðum

06.05.2020 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Kveikur
Arion banki tapaði tæpum 2,2 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra var afkoman jákvæð um sem nemur rúmum milljarði króna. Í tilkynningu frá bankanum segir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft veruleg áhrif á bankann í mars.

Arðsemi eiginfjár var neikvæð um sem nemur 4,6% á tímabilinu, en hún var jákvæð um sem nemur 2,1% á sama tímabili í fyrra.

„Það voru einkum þrír þættir sem orsökuðu neikvæða afkomu á fyrsta ársfjórðungi 2020; hreinar fjármunatekjur voru neikvæðar um 2.000 milljónir króna, einkum vegna gangvirðisbreytinga hlutabréfa vegna óhagstæðrar þróunar á mörkuðum, hrein virðisbreyting var neikvæð um 2.860 milljónir króna, aðallega vegna svartsýnni forsendna í IFRS 9 líkönum bankans, einkum ef horft er til væntrar þróunar atvinnuleysis og tilfærslu viðskiptavina í ferðamannatengdri starfsemi í þrep 2, og aflögð starfsemi, sem var neikvæð um 889 milljónir króna vegna taprekstrar Valitor og matsbreytinga í Sólbjargi og Stakksbergi, en öll dótturfélögin eru flokkuð sem eignir til sölu,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Engin arðgreiðsla

Heildareignir bankans námu 1.188 milljörðum króna í lok mars 2020, samanborið við 1.082 milljarða króna í árslok 2019. Heildar eigið fé í lok mars nam 184 milljörðum króna, samanborið við 190 milljarða króna í árslok 2019.

„Eiginfjárgrunnur samstæðunnar jókst um 23,3 milljarða króna frá áramótum, einkum vegna vel heppnaðrar útgáfu á 100 milljóna dollara skuldabréfs undir viðbótar eiginfjárþætti 1 í febrúar 2020 og vegna ákvörðunar stjórnar Arion banka um að leggja til að ekki verði af fyrirhugaðri arðgreiðslu vegna ársins 2019 í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins og tilmæla Seðlabanka Íslands þar að lútandi. Sú ákvörðun verður til þess að tillaga um 10 milljarða króna arðgreiðslu, sem lá fyrir í árslok 2019, hefur ekki lengur áhrif til lækkunar á eiginfjárgrunni samstæðunnar,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að afkoman á fyrsta ársfjórðungi markist mjög af kórónuveirufaraldrinum.

„Afkoman á fjórðungnum er neikvæð um rúmlega tvo milljarða króna einkum vegna þátta sem tengjast Covid-19 svo sem þróunar verðbréfamarkaða og efnahagslífsins almennt. Markaðsvirði hlutabréfaeignar bankans lækkaði um rúma tvo milljarða króna, niðurfærslur lána námu um þremur milljörðum, eða um 0,38% af lánasafni bankans, og neikvæð áhrif félaga til sölu námu um einum milljarði króna. Niðurfærslur lána eru að mestu tilkomnar vegna væntinga um erfiðleika í efnahagslífinu og þar með auknum líkum á vanskilum,“ segir Benedikt í tilkynningunni.

Þá segir Benedikt að um 91% af útlánum bankans séu tryggð með veðum, þar af 70% með veðum í fasteignum.

Hér má lesa tilkynningu bankans um afkomu á fyrsta ársfjórðungi.