Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aðsókn í Kvennaathvarfið ekki meiri en venjulega

06.05.2020 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðsókn í Kvennaathvarfið hefur ekki aukist í samkomubanni né eftir að bannið var rýmkað. Þetta segir Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra athvarfsins. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað um tíu prósent í kórónuveirufaraldrinum.  

„Það eru 13 konur hjá okkur núna sem er bara venjulegur fjöldi, stundum eru þær færri og stundum fleiri. Auðvitað er erfitt að greina aðstæður kvenna sem eru að flýja heimili sott vegma ofbeldis en við sjáum allavega ekki merkjanlega sveiflu vegna Covid-19,” segir Sigþrúður. 

Aftur á móti hefur umferð á heimasíðu athvarfsins aukist síðustu daga, en þar er að finna ýmsar upplýsingar um ofbeldissambönd. 

„Jafnvel þó ofbeldi aukist gríðarlega er ekki víst að þess sæust nein merki hjá okkur strax. Það er auðvitað bara lítill hópur þeirra sem eru í ofbeldissamböndum sem leita hingað til okkar.” 

Fleiri leita til Bjarkarhlíðar 

Fleiri leita til Bjarkarhlíðar - miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis nú en í byrjun samkomubanns að sögn Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur, verkefnastýru þar. Hún hefur þó ekki tölur um hvort aðsóknin sé meiri en á sama tíma í fyrra. 

„Það lítur þannig út að fólk er farið á stjá aftur og er farið að treysta sér til að koma í viðtöl. Þegar covid byrjaði slökknaði á öllu hjá okkur en aðsóknin hefur verið að aukast jafnt og þétt frá páskum, segir Ragna Björg. Mikið er sótt í lögfræðiaðstoð sem Bjarkarhlíð býður upp á. 

„Ef við horfum á bókanirnar hjá okkur eru nærri öll pláss sem við höfum bókuð. Það er mikið að gera og mér sýnist fólk vera tilbúið að leita sér hjálpar núna aftur.”