Vinnusamir skólanemar bættu fyrir gjörðir sínar

05.05.2020 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Umhvefisstofnun - Aðsend mynd
Framhaldsskólanemendur á höfuðborgarsvæðinu gáfu sig fram við Umhverfisstofnun og viðurkenndu að hafa unnið skemmdir á klöpp í Helgafelli í Hafnarfirði með því að krota á hann. Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að nemendurnir hafi boðist til þess að lagfæra skemmdirnar. 

„Þau fóru þarna til að skoða og sáu að þarna hafði verið krotað og hermdu eftir því,“ sagði Ólafur. Hann segir að mesta hættan við skemmdir af þessu tagi séu þær að þegar fólk sér þær þá líti það svo á að það sé í lagi að skilja eftir verksummerki af þessu tagi og skemmdirnar aukist því.  

Fréttastofa sagði frá skemmdunum í síðustu viku, en athugull vegfarandi varð var við þær við göngu á fjallinu á sumardaginn fyrsta. Ólafur segir að þegar málið komst í fréttir hafi börnin orðið leið. . „Kennarinn sagði að nemendur væru fullir iðrunar og vildu bæta fyrir,“ segir Ólafur. Því hafi verið gripið á það ráð að skipuleggja ferð með nemendunum og öðrum sem vildu koma til aðstoðar. Starfsmaður Umhverfisstofnunar fór svo í ferðina í gær með börnunum og „Þá kom í ljós að það höfðu bæst við nýjar skemmdir. Þannig að skemmdir kalla á frekari skemmdir,“ segir Ólafur og bætir við að hópurinn hafi náð góðum árangri við að afmá það sem þau höfðu gert og meira til. 

„Þetta eru flottir nemendur og gott að fólk vilji gangast við gjörðum sínum og bæta fyrir þær,“ segir Ólafur. Málið hafi því endað vel fyrir alla, en betra hefði verið að aldrei hefðu verið unna þarna skemmdir. 

René Biasone,sérfræðingur náttúruverndarsvæða og umsjónarmaður Sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar, fór með nemendunum í gær. Hann staðfestir að mikið hafi bæst við krotið frá því að það svar skoðað í síðustu viku. En vinnan við að afmá það hafi gengið vel og veður og vindur muni svo afmá það alveg. 

 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV