Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvær kærur vegna framkvæmdaleyfis fyrir Þ-H leið

05.05.2020 - 09:14
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur á borði sínu tvær kærur til Reykhólahrepps vegna áforma um að leggja veg um Teigsskóg. Báðar kærurnar snúast um að Vegagerðin hafi þvingað valið á leiðinni upp á sveitarstjórnina.

Kærurnar varða framkvæmdaleyfi hreppsins til Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leið Vestfjarðavegar um Teigsskóg. Landvernd stendur að annarri kærunni og landeigendur að Hallsteinsnesi og Gröf; Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands að þeirri seinni.

Deilt hefur verið um leiðina vegna umhverfisáhrifa hennar á Teigsskóg, sem er stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum, sem og leirur og dýralíf.

Báðar kærurnar eru margþættar, þær eru meðal annars sammála um það að Vegagerðin hafi þvingað valið á Þ-H leiðinni í gegnum Teigsskóg upp á sveitarstjórnina. Það hafi hún gert með því að segja að ef dýrari leið yrði fyrir valinu myndi aukatilkostnaður falla á sveitarfélagið.

Gagnrýnir framgöngu Vegagerðarinnar

Katrín Theodórsdóttir, lögmaður landeigenda, segir í samtali við fréttastofu að sveitarfélagið hafi vissulega lagt sig fram um að vanda leiðarvalið, meðal annars með því að leita álits frá tveimur óháðum fagaðilum. En vegna framgöngu Vegagerðarinnar hafi þau álit farið í súginn.

Mynd með færslu

Benda á mögulegt vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa

Í seinni kærunni er einnig tæpt á mögulegu vanhæfi Jóhönnu Aspar Einarsdóttur, sveitarstjórnarfulltrúa, vegna eiginhagsmuna. Það sjáist á tölvupóstsamskiptum þar sem Vegagerðin segir henni að ef Þ-H leiðin yrði fyrir valinu yrði einnig malbikað að Gufudal þar sem hún er til heimilis. Jóhanna hafnar vanhæfi.

„Í litlum samfélögum erum við tengd öllum málefnum sem við fjöllum um. Ef við hefðum farið út í það að það megi bara ótengdir þessu máli taka ákvörðunina, þá eru ansi fáir eftir til þess að taka ákvarðanir fyrir sveitarfélagið,“ segir hún.

Hún hefur ekki í hyggju að víkja úr sveitarstjórn.

„Ef sveitarstjórn fer fram á að ég stígi til hliðar á meðan þetta mál er tekið fyrir, þá mun ég að sjálfsögðu fara eftir því. En ég sé ekki að ég geti ekki fjallað um málefni sveitarstjórnar að öðru leyti út þetta kjörtímabil.“

Hún tekur ekki undir það að valið hafi verið þvingað. Hins vegar stangist vegalög, sem fara fram á að öruggasta leiðin verði fyrir valinu, á við skipulagsvald sveitarfélaga.

Sér engan kost annan en að leggja leiðina af

Ingimar Ingimarsson er andsnúinn Þ-H leiðinni og sagði af sér sem oddviti þegar framkvæmdaleyfið var samþykkt. Hann segir þjarmað að stjórnarskrárbundnum sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga.

„Það er fjöldinn allur af lagabrotunum sem verið er að gera með þessari leið og þar á meðal stjórnarskrárbrot. Þetta er mjög alvarlegt og ég held að það verði erfitt að svara þessu nema með því að taka þessa leið af,“ segir hann.