Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Þetta var eins og Disneyland fyrir víkinga“

Mynd: Netflix / The Last Kingdom

„Þetta var eins og Disneyland fyrir víkinga“

05.05.2020 - 12:59

Höfundar

Hlutverk höfuðskúrksins í fjórðu seríu víkingaþáttanna The Last Kingdom, sem eru nú í sýningu á streymisveitunni Netflix, er í höndum Eysteins Sigurðarsonar sem landsmenn þekkja meðal annars úr sjónvarpsmyndinni Mannasiðum. Eysteinn býr í London með Salóme Gunnarsdóttur leikkonu.

Leikaraparið býr í fallegu íbúðahverfi í Hackney í Norðaustur-London, í sambýli við tvö önnur pör. Þar í borg hefur síðustu vikur verið strangt samkomu- og útgöngubann svo sambýlingarnir hafa verið mjög einangraðir saman undanfarið og skrautleg stemning á heimilinu. „Það er gaman að segja frá því að þetta fólk er allt nýbyrjað saman svo við Salóme erum hérna að fylgjast með ást þeirra blómstra í einangrun. Þetta er svolítið eins og að vera staddur í raunveruleikaþætti eins og Love Island,“ segir hann.

Starfar sem kokkur meðfram leiklist

Þrátt fyrir einangrun og inniveru hafa síðustu vikur verið tíðindamiklar hjá Eysteini. Netflix frumsýndi loksins fjórðu þáttaröð The Last Kingdom og þar fer Eysteinn með stórt hlutverk, sjálfan skúrkinn í seríunni sem var tekin upp á síðasta ári. Þættirnir eru byggðir á bókaflokkinum The Saxon Stories eftir Bernard Cornwell. Felix Bergsson sló á þráðinn til Eysteins á sunnudaginn í þættinum Fram og til baka á Rás 2.

Það getur verið hark að vera ungur og upprennandi leikari í London en Eysteini og Salóme hefur báðum tekist, með þrotlausri vinnu, að landa stórum hlutverkum. Meðfram leiklistinni starfar Eysteinn líka sem kokkur svo hann hefur í nægu að snúast. „Ef maður er heppinn landar maður kannski einu, tveimur verkefnum á ári. Þau borga svona nægilega til að halda manni uppi út árið,“ segir Eysteinn. Kokkastarfið segir hann kærkomna leið til að nýta tímann á milli anna í leiklistinni. Það liggur enda vel fyrir Eysteini sem er alinn upp við mikla og metnaðarfulla matseld fjölskyldunnar. Þegar hann útskrifaðist úr leiklistarskólanum fékk hann kokkahníf frá systur sinni að gjöf sem hefur nýst honum afar vel í stórborginni.

Lék átján ára menntaskólapilt í Mannasiðum

Eftir útskrift úr leiklistardeild Listaháskólans fengu bæði Eysteinn og Salóme atvinnutilboð frá stóru leikhúsunum en eftir að hafa leikið á sviði um nokkurt skeið fór parið að langa út í heim. Eysteinn var nýbúinn að finna sér umboðsmann í London og byrjaður að pakka í tösku þegar honum bauðst hlutverk í íslenskri sjónvarpsmynd sem nefnist Mannasiðir í leikstjórn Maríu Reyndal. Hann ákvað að fresta flutningunum aðeins til að taka þátt í myndinni þar sem leikur hann átján ára menntaskóladreng. Hann vakti athygli fyrir hlutverkið og var meðal annars tilnefndur til Edduverðlauna fyrir frammistöðuna. „Það var skrýtið að leika í þessari mynd því við gerðum þetta á svo stuttum tíma. Maður fór inn í þeytivindu og spýttist út úr henni,“ rifjar hann upp. Þættirnir fengu einnig mikið lof og hlutu Edduverðlaunin í flokknum leikið stjónvarpsefni ársins. „Það var magnað að fylgjast með þessu,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: - - Aðsent
Morðóður víkingur og föðursystir Batman þegar þau eru komin úr gervinu

Fannst hann líkjast föðursysturinni með hárkolluna

Eftir tveggja ára dvöl í stórborginni og margar prufur og annir í kokkastarfinu fékk Eysteinn stóra tækifærið í Last Kingdom. Þættirnir voru teknir upp í Búdapest í fyrrasumar og stóðu yfir í sex vikur, í miðaldaþorpi sem reist var frá grunni í útjaðri borgarinnar. Í þáttunum leikur hann að eigin sögn „vonda kallinn“ í fjórðu seríu sem honum finnst skemmtilega frábrugðið því að leika íslenskan menntaskóladreng. „Það var ótrúlegt að koma til Búdapest, þetta var eins og Disneyland fyrir Víkinga,“ segir Eysteinn. „Það var alveg sérstakt að koma inn í þennan ótrúlega töfrandi kvikmyndaheim. Bransinn á Íslandi er líka magnaður en ég hafði aldrei tekið þátt í svona stóru verkefni.“

Í tökum var Eysteinn í víkingabrynju, mikið farðaður og stórt ör var teiknað þvert yfir andlitið á honum svo hann liti út eins og víkingur sem hikaði ekki við að brúka exina sína. Svo bar hann síða og glæsilega hárkollu. Vinum og fjölskyldu var skemmtilega brugðið að sjá hann svo reffilegan en fjölskyldan sá óvænt líkindi þegar þau sáu mynd af honum í múnderingunni. „Ömmu, pabba og fleirum í föðurætt minni fannst ég reyndar helst líkur Bryndísi föðursystur minni með hárkolluna,“ segir hann og hlær.

Drykkfelld föðursystir leðurblökumannsins

Þættirnir eiga sér aðdáendur um allan heim og eftir að Eysteinn birtist í þeim hafa ýmsar dyr opnast hjá leikaranum. Hjólin eru líka byrjuð að snúast af krafti hjá Salóme sem fer með hlutverki í Knightfall sem eru vinsælir þættir sem einnig eru sýndir á Netflix en leikur einnig í nýjum þáttum sem kallast Pennyworth sem Eysteinn segir sérstaklega áhugaverða. Þættirnir segja baksögu Alfreds Pennyworth, sem ofurhetjuunnendur þekkja sem bryta Batmans. Í þáttunum leikur Salóme drykkfellda föðursystur Leðurblökumannsins.

Salóme var reyndar í miðjum tökum á annarri seríu þáttanna þegar framleiðsluna þurfti að stöðva tímabundið vegna samkomubanns. Hún hreppti nýverið einnig hlutverk í hryllingsmynd sem á að taka upp í Rúmeníu en tökum á henni hefur verið frestað vegna faraldursins. Eysteinn hefur einnig ýmislegt á prjónunum og hlakka þau bæði mikið til þess að geta aftur farið að bregða sér í hin ýmsu hlutverk á ný.

Felix Bergsson ræddi við Eystein Sigurðarson í Fram og til baka á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Leikhússtreymi hjálpar leikurum í samkomubanni

Kvikmyndir

Tökur hafnar á páskamynd RÚV